Um 40 erlendir fjölmiðlar fylgja Pírötum eftir

Erlendir fjölmiðlar sýna alþingiskosningunum mikinn áhuga og þá ekki síst …
Erlendir fjölmiðlar sýna alþingiskosningunum mikinn áhuga og þá ekki síst Pírötum. Fleiri tugir fjölmiðla fór með Birgittu Jónsdóttur að kjósa í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um fjörutíu erlendir fjölmiðlar fylgja Pírötum eftir á Íslandi í dag og mikið hefur verið fjallað um flokkinn í erlendum fjölmiðlum að undanförnu.

Meðal þeirra fjölmiðla sem eru að fylgja Pírötum eftir í dag eru blaða/fréttamenn frá: DR, Politiken, New York Times, AFP, Le Monde, The Daily Telegraph, Al Jazeera, Swiss Broadcasting company, þýska ríkissjónvarpið og fleiri, að því er segir í tilkynningu frá Pírötum.

„Í dag er gengið til alþingiskosninga vegna spillingarmála sem ríkisstjórnarflokkarnir urðu uppvísir að og þjóðin mótmælti kröftuglega hinn 4. apríl sl. í stærstu mótmælum Íslandssögunnar. Uppljóstrun Panamaskjalanna leiddi í ljós að auk fjölda Íslendinga sem var að finna í þeim skjölum, voru þar þrír ráðherrar í núverandi ríkisstjórn. Það er þess vegna sem við göngum til kosninga í dag.

Panamaskjölin vöktu athygli um heim allan og í dag hvíla augu heimsins á okkur. Ætlar íslenska þjóðin að kjósa að búa við sömu ríkisstjórn og varð uppvís að fjölda spillingarmála auk þess að vera í Panamaskjölunum, eða ætla Íslendingar að hafna spillingu og kjósa flokk sem berst gegn henni og leggur áherslu á lögfestingu nýrrar stjórnarskrár og vill færa valdið til fólksins?

Um það bil fjörutíu erlendir fjölmiðlar eru á Íslandi í dag og fylgja Pírötum eftir þar sem þetta er tækifærið sem íslenska þjóðin hefur til að krefjast breytinga í formi nýrra stjórnarhátta og samfélags án spillingar.

Píratar eru snortnir yfir allri þeirri athygli sem framboð okkar hefur vakið á heimsvísu,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Pírötum en þeir hafa boðað til blaðamannafundar klukkan 15 á morgun með erlendum fjölmiðlum á Bryggjunni brugghúsi þar sem niðurstöður kosninga verða ræddar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert