Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, var ánægð með fyrstu tölur kvöldsins. Píratar mælast með 12,3% fylgi og bæta við sig sex þingmönnum frá síðast. Þeir voru þrír en verða samkvæmt þessu níu.
„Við erum alveg ótrúlega glöð. Bara ef við myndum fara í 15%, ekki hærra, þá værum við búin að þrefalda fylgið okkar frá því síðast,“ segir Birgitta í samtali við mbl.is eftir fyrstu tölur kvöldsins.
„Við höfum alltaf sagt að þessar tölur sem eru í skoðanakönnunum eru ekki raunsæjar. Það eru allir hinir sem hafa verið að taka þeim sem einhverjum veruleika. Píratar, innra með sér, hafa aldrei verið að búast við 30% eða einhverju slíku. Við erum mjög ánægð að hafa verið svona nákvæm með hugsanleg möguleg úrslit,“ bætir Birgitta við.
Uppljóstrun Panama-skjalanna er ástæða þess að kosið var nú en ekki næsta vor, eins og hefði átt að gera. Þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar, tveir úr Sjálfstæðisflokki og einn úr Framsóknarflokki, komu fyrir í skjölunum. Það kemur Birgittu á óvart hversu mikið fylgi Sjálfstæðisflokksins er:
„Það kemur mér rosalega á óvart. Mér finnst það mjög sorglegt og sorglegt að heimspressan sem er hérna mun flytja þær fréttir á morgun að Panama-stjórnin; ráðherra skattamála sem átti eignir í skattaskjólum eigi möguleika á því að verða forsætisráðherra. Það virkar mjög furðulega úti í heimi,“ segir Birgitta að lokum.