Bjarni Benediktsson segist í raun engan flokk hafa útilokað til mögulegs stjórnarsamstarfs, aðra en Pírata. Bjarni hefur sagst áfram vera samstarfsfús við Framsóknarflokkinn en spurður hvort hann telji ríkisstjórn, sem samanstendur af báðum núverandi stjórnarflokkum, líklega til vinsælda meðal almennings, segist Bjarni ekki vilja gefa sér neitt fyrirfram í því.
„Þessir flokkar geta myndað kjarnann í þriggja flokka stjórn ef til þess kæmi og ég er einfaldlega að segja með þessu að ég ætla að ganga inn í morgundaginn og næstu daga með opinn huga," segir Bjarni. „Ég útiloka alls ekki Framsóknarflokkinn sem samstarfsaðila enda hef ég í raun og veru engan útilokað í umræðum um þetta aðra en Píratana.“
Hann segist ekki ætla að tína til neina flokka umfram aðra og segist, líkt og komið hefur fram, ætla að bíða og sjá úrslitin áður en lengra er haldið.
„Það kemur að því, um leið og ég fæ tíma til þess, mundi ég hafa mjög gaman af því að baka einhverja táknræna köku í tilefni af niðurstöðunni,“ segir Bjarni, um hvort hann ætli að baka köku til að fagna úrslitum kosninganna.
„Nú er klukkan að verða tvö og ég held að ég hefði gott af því að fara að hvíla mig áður en mjög langt um líður, ég fylgist kannski með þessu á náttbuxunum eitthvað fram eftir,“ segir Bjarni, sem er afar ánægður með stöðuna.