Húmanistaflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin og Alþýðufylkingin fengu færri atkvæði en meðmælendur í alþingiskosningunum sem fram fóru í gær.
Húmanistaflokkurinn fékk samtals 33 atkvæði greidd í kosningunum, Íslenska þjóðfylkingin 303 atkvæði og Alþýðufylkingin 575 atkvæði.
Húmanistaflokkurinn bauð sig einungis fram í Reykjavík suður. Alþýðufylkingin bauð fram í fimm kjördæmum af sex, öllum nema Norðvestur. Íslenska Þjóðfylkingin bauð sig fram í Norðvestur- og Suðurkjördæmi.
Fjöldi meðmælenda við lista skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki. Felur þetta í sér að fjöldi yfirlýstra stuðningsmanna lista í kjördæmi með tíu þingsæti skal vera á bilinu 300-400 en á bilinu 330-440 í kjördæmi með ellefu þingsæti.
Ellefu þingmenn sitja á þingi í Reykjavík suður og lágmarksfjöldi meðmælenda því 330 manns. Húmanistaflokkurinn fékk eins og áður sagði 33 atkvæði, 297 atkvæðum færra en lágmarksfjölda meðmælenda.
Íslenska þjóðfylkingin fékk 90 atkvæði í Norðvesturkjördæmi en þar sitja átta þingmenn og lágmarksfjöldi meðmælenda því 240 manns. Í Suðurkjördæmi fékk flokkurinn 213 atkvæði en þar eru tíu þingmenn og lágmarksfjöldi meðmælenda því 300 manns.
Alþýðufylkingin fékk 104 atkvæði í Reykjavík norður og 79 atkvæði í Reykjavík suður. Eins og áður kom fram eru ellefu þingmenn í báðum kjördæmum og því þurfti 330 meðmælendur hið minnsta. 103 kusu flokkinn í Suðvesturkjördæmi þar sem þingmenn eru 13 talsins og því þurfti þar 390 meðmælendur að lágmarki. 211 kusu Alþýðufylkinguna í Norðausturkjördæmi þar sem þingmenn eru tíu og mælendur hefðu því þurft að lágmarki að vera 300.