Lokatölur hafa borist í öllum kjördæmum utan Norðvesturkjördæmis. Miðað við stöðuna núna fær Sjálfstæðisflokkur 29,1% atkvæða og 21 sæti, Vinstri grænir 15,8% atkvæða og 10 sæti og Píratar 14,5% og 9 sæti.
Framsóknarflokkur er með 11,3% atkvæða og 8 sæti og Viðreisn fær 10,5% og 7 sæti. Björt framtíð er með 7,3% og 5 sæti og Samfylkingin 5,8% og 3 sæti.
Miðað við þetta er ríkisstjórnin fallin og missir 9 þingsæti. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 2 sætum, en Framsókn missir aftur á móti 11 þingsæti, mest allra í kosningunum.
Vinstri grænir bæta við sig 3 þingsætum, Píratar 6 sætum, en hástökkvarar kosninganna hingað til er Viðreisn sem kom ný inn í þessum kosningum og fær beint 7 þingmenn. Björt framtíð missir einn þingmann og Samfylking missir 6 þingmenn.
Miðað við stöðuna núna eru þau Andrés Ingi Jónsson, hjá Vinstri grænum og Sigrún Gunnarsdóttir hjá Bjartri framtíð, inni sem uppbótarþingmenn í Reykjavík norður. Í Reykjavík suður eru þau Nichole Leigh Mosty hjá Bjartri framtíð og Pawel Bartoszek hjá Viðreisn inni í Reykjavík suður.
Í Suðvesturkjördæmi eru Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Bjartri framtíð, og Jón Steindór Valdimarsson í Viðreisn inni sem uppbótarþingmenn. Í Norðausturkjördæmi er Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar inni sem uppbótarþingmaður og í Suðurkjördæmi er Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, inni í uppbótarsæti. Í Norðvesturkjördæmi er það Guðjón S. Brjánsson hjá Samfylkingu sem er inni í uppbótarsæti.