„Þetta er erfitt, því það er margt gott og margt slæmt í þessu,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, fráfarandi þingmaður Pírata, spurður um álit sitt á niðurstöðum alþingiskosninganna.
„Maður sér sumt fólk fara út sem maður vildi hafa inni, en á móti kemur inn fólk sem maður vildi einmitt mjög mikið að kæmist inn, svo þetta eru dálítið blendnar tilfinningar,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.
„Ég er mjög ánægður með okkar árangur. Það var vissulega við því búist að kannanir gæfu skakka mynd, fyrir utan það að maður veit bara betur en að taka könnunum sem einhverjum heilögum sannleika, þetta breytist svo hratt.“
Þó að Píratar hafi ekki náð þeim árangri sem ýmsar skoðanakannanir höfðu sýnt fram á, segir Helgi að himinn og haf sé á milli þess að hafa tíu manna þingflokk og þriggja manna þingflokk.
„Ég fagna því nú bara sérstaklega að Píratar geti loksins mannað allar nefndir. Auðvitað er það þó ekki boðlegt að smærri flokkar séu einfaldlega undanskildir stórum hluta þingstarfsins sökum manneklu. Það er fáránleg staða, en hún er að minnsta kosti komin í lag hjá okkur.“
Bendir hann á að sífellt dræmari kjörsókn sé mikið áhyggjuefni, en hún var 79,2% í ár.
„Sérstaklega núna, þegar í boði eru margir valkostir. Það er ekki eins og fólk hafi skort valkosti,“ segir Helgi og bætir við að finna þurfi lausn á þessu.
Margir hafa haft orð á því að fylgi Pírata hefði verið mun meira í kosningunum, ef Helga hefði notið meira við í kosningabaráttunni og hann boðið sig fram til áframhaldandi þingmennsku.
Helgi segist aðspurður hafa mætt þessu viðhorfi víða.
„Ég heyri þetta rosalega mikið, það eru mjög margir að segja mér þetta. En Píratar eru flokkur sem gengur ekki út á að tilteknir aðilar þurfi að vera á þingi til að hann virki sem slíkur,“ segir hann.
„Ef þetta er satt, sem þeir segja, þá er það vandamál gagnvart okkar störfum sem mig langar til að laga. En ég get það ekki nema sem óbreyttur meðlimur flokksins, sem ég hyggst gera.
En þetta er rétt ákvörðun, ég er algjörlega sannfærður um það. Rétt ákvörðun verður ekki röng við það að verða óvinsæl.“
Hvaða stjórn sérðu fyrir þér núna, að kosningum loknum?
„Úff, spurðu Guðna Th. um það maður!“ svarar Helgi og hlær við.
„Ég segi ekki orð um það. Þetta er svo skrýtin staða. Sjálfstæðisflokkurinn eykur við sig, sem mér finnst persónulega stórfurðulegt. Ég öfunda ekki forsetann af hans stöðu, að reyna að finna út hvernig hann eigi að púsla þessu saman.
En ég myndi fagna því sjálfur ef við myndum loksins koma á minnihlutastjórn. Mér finnst pirrandi hvernig íslensk stjórnmál eru gegnsósa af þessari ímynduðu þörf fyrir meirihlutastjórnir.“