„Það er ástæða til að gleðjast,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, en fyrstu spurningu var beint að honum þegar oddvitar allra flokka sem mælast inni á þingi komu saman í beinni útsendingu RÚV nú rétt fyrir klukkan eitt.
Hann var spurður að því hvort hann byggist við því að fá stjórnarmyndunarumboð. „Ég ætla að bíða eftir heildarmyndinni. Við erum afskaplega ánægð með þessar fyrstu tölur og eins og sakir standa mælumst við stærst í öllum kjördæmum,“ sagði Bjarni.
„Ég mundi gjarnan vilja velta þessu fyrir mér þegar endanleg úrslit liggja fyrir. Ef úrslitin verða á þessa lund þá finnst mér eðlilegt að við séum berandi flokkur í næstu ríkisstjórn,“ sagði Bjarni og aðspurður sagðist hann ekki útiloka áframhaldandi samstarf með Framsóknarflokknum.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, var ánægður með stöðu flokksins miðað við nýjustu tölur. Hann segir þó ýmislegt áhugavert um stöðu mála. „Það er athyglisvert hvað Sjálfstæðisflokkurinn fær góða kosningu. Ég held að það liggi í Píratabandalaginu sem reynt var að mynda fyrir kosningar,“ sagði Benedikt.
Ásta Guðrún Helgadóttir frá Pírötum brást við því að staða flokksins er lakari en skoðanakannanir gefa til kynna.
„Við höfum alltaf talað varlega um þessar skoðanakannanir. Við höfum alltaf gert okkur grein fyrir því. Varðandi þetta kosningabandalag þá vorum við að reyna að mynda betri línur í íslenskum stjórnmálum. Svipað og gert hefur verið á Norðurlöndunum,“ sagði Ásta.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var ánægð með stöðu mála en flokkurinn mælist með 16,4% á landsvísu og bætir við sig 3,5%.
„Ég held að kosningabaráttan hafi tekist vel því við höfum unnið hart allt kjörtímabilið að okkar stefnu. Það var mikill áhugi fyrir því að komast á lista og taka þátt. Fyrir það er ég þakklát. Ef þetta verður niðurstaðan þá verðum við mjög sátt. En við bíðum spennt eftir lokaniðurstöðu,“ sagði Katrín.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist svekktur vegna stöðu flokksins miðað við hvað tölur sýna nú og sagði Sjálfstæðisflokkinn vera að græða á þeim málum sem ríkisstjórnin hefði náð í gegn á þessu kjörtímabili.
„Við unnum stórsigur í síðustu kosningum og væntum þess ekki að ná því aftur. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur notið góðs af þeim árangri sem hefur náðst, og meðal annars af okkar málum eins og Leiðréttingunni og öðru sem við lögðum áherslu á. Við njótum ekki góðs af árangrinum svo það þarf að leita skýringa á þessu mikla fylgistapi,“ sagði Sigurður Ingi.
„Við þurfum lengri tíma til þess að græða öll sár innan flokksins. Þetta er flokkur sem hefur gengið í gegnum ýmislegt og við höfum náð frábærum árangri á þessu kjörtímabili en við fáum ekki að njóta góðs af því núna,“ sagði Sigurður Ingi.
Hann sagði að ef lokastaðan yrði svona færi hann á fund forseta á morgun og skilaði inn umboðinu til ríkisstjórnar. Hann sagði það augljóst að Bjarni Benediktsson ætti að taka við því umboði.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, var spurð að því hvernig hún mæti stöðu sína sem formaður ef úrslitin yrðu eins og stefndi í. Samfylkingin er með 6,3% á landsvísu sem er lakara en skoðanakannanir bentu til.
„Ég ætla ekki að taka neinar ákvarðanir um stöðu mína í kvöld, en ég mun fara yfir hana með félögum mínum,“ sagði Oddný og bætti við að verst væri að stefna flokksins væri að svertast.
„Þetta er hræðilegt fyrir jafnaðarstefnuna, sem er stór og falleg hugsjón sem við höfum borið uppi. En það er jákvætt að komnir eru nýir flokkar sem hafa tekið upp mál. Við vorum til að mynda um tíma eini flokkurinn sem vildi ganga í ESB. Nú eru þeir fleiri,“ sagði Oddný Harðardóttir.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, er ánægður með fylgi flokksins sem er nú 7,7% á landsvísu eftir því sem nýjustu tölur sýna.
„Við fengum glimrandi útkomu úr síðustu kosningu og við glímum nú við það eins og ný framboð í næstu kosningum að erfitt er að fylgja eftir. Við höfum jafnvel verið afskrifuð í skoðanakönnunum og í sumar voru spekingar að hlæja að því hvort við myndum ná að bjóða fram yfir höfuð. Svo þetta er sigur fyrir okkur,“ sagði Óttarr.