Telur að Bjarni fái umboð til stjórnarmyndunar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef það er enginn annar en Bjarni Benediktsson sem getur sýnt forsetanum fram á að hann sé með einhverja ríkisstjórnarmyndunarmöguleika í höndunum þá verður það Bjarni,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson mun eiga fund á morgun með forystumönnum stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á nýkjörnu Alþingi.

Frétt mbl.is - Fundar fyrst með Bjarna 

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri. mbl.is

Unga fólkið ekki að skila sér á kjörstað 

Grétar segir Sjálfstæðisflokkinn hafa unnið á í kosningunum með því að hamra mikið á stöðugleika. „Ég held að margir kjósendur hafi valið þá þar sem þeir voru valkostur sem gat boðið upp á stöðugleika sem fólk vill gjarnan hafa eftir þá sem á undan hefur gengið.“

Hann segir kannanir eitt og kosningar annað eins sjá megi af gengi Pírata. „Margt ungt fólk skilar sér ekki jafn vel á kjörstað og það hefur örugglega skemmt fyrir Pírötum. Það er greinilegt að Píratar vissu þetta en þeir voru að vinna töluvert í því að fá unga fólkið á kjörstað en það hefur ekki dugað til. Engu að síður þrefaldaði flokkurinn fylgi sitt sem er ágætis árangur sem ekki má gleyma.“

Þá segir Grétar Framsóknarflokkinn hafa tekið á sig mikinn skell en flokkurinn hefur verið að glíma við sín innanmein eftir Wintris-málið. „Flokkurinn skipti um formann fyrir stuttu en náði ekki upp nægilegum vopnum eftir hreinsunina.“

Sjálstæðisflokkurinn uppfyllir lykilskilyrðin 

„Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn og vann á í kosningunum,“ segir Grétar og bætir við að hann uppfylli því í raun tvö lykilskilyrði. Hann segir það því liggja við að Bjarni Benediktsson fái stjórnarmyndunarumboð nema aðrir flokkar nái að sannfæra forsetann um það að þeir séu með ríkisstjórnarmyndun í kortunum en lítið hafi þó heyrst til um það.

Grétar segir ljóst að erfitt geti reynst að mynda nýja ríkisstjórn en þó ekki þannig að skipa þurfi utanþingsstjórn. „Ég held að stjórnmálamönnum á Íslandi hafi nú alltaf tekist á endanum að mynda þingstjórn og ég ætla að trúa því að þeim takist það í þetta skipti líka. Það eru engin svona sérstaklega erfið mál sem getur brotið á á milli flokka. Þannig að ég held að menn nái lendingu um eitthvað sem greinir á,“ segir Grétar.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson mun eiga fund á morgun …
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson mun eiga fund á morgun með forystumönnum stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á nýkjörnu Alþingi. mbl.is/Júlíus

 Hvaða flokkar telur þú að muni mynda ríkisstjórn?

„Ég á afskaplega erfitt með að gera mér þetta í hugalund. Ég hef einhverja tilfinningu fyrir því að Viðreisn gæti endað með Sjálfstæðisflokknum en síðan er spurning hver verður í selskab með þeim. Það gæti orðið Björt framtíð. Við höfum tvö dæmi um að Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn séu í meirihluta saman eins og í Kópavogi og Hafnarfirði. Þar starfa flokkarnir saman í bæjarstjórn. Það gæti sagt okkur eitthvað.“

Margir hafa rætt þann möguleika að stjórnarmyndunarumboðið ætti að fara til Vinstri grænna þar sem stjórnin sé fallin og segja að hefð sé fyrir því. Hver er þín sýn á þetta?

„Mér finnst þetta í langsóttara lagi. Stjórnin féll út af hruni Framsóknarflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn vann á þannig að það flækir þetta. Þessi hefð er ekki til en hins vegar ef báðir ríkisstjórnarflokkarnir hefðu tapað fylgi þá gæti verið eitthvað til í þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert