Þingflokkur Vinstri grænna kemur saman til fundar klukkan 15 í Alþingishúsinu. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, í samtali við mbl.is.
„Við ætlum að ná aðeins að sjá framan í hvert annað, þetta er auðvitað dálítið af nýju fólki,“ segir Svandís, en við þingflokkinn bætast þau Andrés Ingi Jónsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Ari Trausti Guðmundsson.
„Við köllum þetta óformlegan upplýsingafund, þar sem við ætlum að fara yfir stöðuna, en ekkert annað er sérstaklega á dagskrá,“ segir Svandís.
Bætir hún við að staðan sé flókin nú að kosningum loknum, og segist búast við að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, muni „taka hringinn“ hjá leiðtogum flokkanna í dag.