„Viðreisn í algerri lykilstöðu“

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor.
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor. mbl.is/Kristinn

„Stóru línurnar eru komnar. Þetta breytist nú ekki mikið úr því sem komið er,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is inntur álits á stöðunni í þingkosningunum miðað við þau atkvæði sem talin hafa verið. Hugsanlega breytist staðan um einn þingmann til eða frá en ekki mikið meira en það.

„Ég tel að Píratar séu sigurvegarar kosninganna. Þeir eru að fá meira fylgi en nokkur annar flokkur fyrir utan fjórflokkinn hefur fengið í sögunni. Viðreisn og Vinstri græn eru einnig sigurvegarar kosninganna. Viðreisn er að fá næstbesta fylgi hjá nýjum flokkum inn á þing. Aðeins Borgaraflokkurinn gerði betur 1987. Þannig að þetta er gríðarlega góður sigur hjá Viðreisn og VG er að bæta við sig verulega. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig að koma mjög vel út. Sérstaklega í ljósi þes að hann gengur klofinn til kosninga og hluti af fyrrverandi forystusveit flokksins gekk í Viðreisn. Hann er að koma betur út en skoðanakannanir gáfu til kynna.“

Afhroð hjá Framsókn og Samfylkingunni

Hvað hina flokkana varðar sé ljóst að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin bíði afhroð. „Þeir eru að fá sína verstu útkomu í 100 ára sögu þessara flokka. Í sögu Jafnaðarmannaflokks Íslands og í sögu Framsóknarflokksins og í ár eru 100 ár liðin frá stofnun þeirra,“ segir Baldur. Hvað Bjarta framtíð varðar segir Baldur að flokkurinn hafi bjargað sér með andstöðunni við búvörusamningana sem og ágætis málflutningi Óttars Proppé. Þrátt fyrir mótbyr hafi Björt framtíð einfaldlega haldið áfram sínu striki og haldið sínu nokkurn veginn.

„Viðreisn virðist í algerri lykilstöðu þegar kemur að myndun ríkisstjórnar. Ég byggi það á því að stjórnarandstaðan á þingi og stjórnarflokkarnir hafa áþekkan þingmannafjölda. Þannig að það mun ráðast af því við hverja Benedikt [Jóhannesson, formaður Viðreisnar] vill byrja að tala og ef marka má yfirlýsingar hans þá mun flokkurinn reyna frekar að mynda ríkisstjórn með þessum fjórum stjórnarandstöðuflokkum því hann hefur sagt að hann ætli ekki að vera þriðja hjólið undir vagni ríkisstjórnarflokkanna,“ segir Baldur ennfremur.

„Þannig að það má gera ráð fyrir því að þessir fimm flokkar reyni stjórnarmyndun eða kanni að minnsta kosti stöðuna á bak við tjöldin. Ef þeir ná ekki saman þá opnast í rauninni Pandórubox og þá eru í rauninni allir möguleikar í stöðunni. Þá verður Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað í sterkri stöðu sem stærsti flokkurinn á þingi,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka