Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, lagði fram þá tillögu á fundi með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á fundi þeirra á Bessastöðum í dag að Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, yrði veitt stjórnarmyndunarumboðið. Færði hann þau rök fyrir þeirri tillögu að líkt og Björt framtíð væri Viðreisn miðjuflokkur.
„Við höfum lagt áherslu á það í Bjartri framtíð að við erum frjálslyndur miðjuflokkur og við sjáum mikla samvinnu og samleið með okkur og Viðreisn sem er náttúrulega nýr miðjuflokkur líka. Við höfum lagt til að Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, verði gefinn möguleiki á því að spreyta sig á því að mynda stjórn. En við höfum ekki útilokað fyrirfram neinar stjórnarútgáfur,“ sagði Óttarr.
Óttarr sagði Bjarta framtíð telja mikilvægt að reyna að mynda breiða stjórn. Niðurstaða kosninganna væri hvorki skýr hægri- né vinstriniðurstaða. „Stjórnin kolféll en það má heldur ekki segja að stjórnarandstaðan hafi unnið. Okkur finnst mikilvægt að reyna að fara á breiddina.“