„Ég upplýsti forsetann um það að við værum algerlega tilbúin til þess að taka þátt í og jafnvel leiða fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri og það væri niðurstaða okkar eftir að hafa farið yfir úrslit kosninganna,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, eftir fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag. Vísaði hún þar til Pírata, Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar auk VG.
„Síðan fórum við auðvitað bara yfir stöðuna vítt og breitt,“ sagði hún enn fremur. Hún hefði lagt áherslu á það að úrslit kosninganna væru ákall um ákveðnar breytingar að mati VG. Spurð hvort hún hefði rætt við fulltrúa hinna stjórnarandstöðuflokkanna og Viðreisnar sagði Katrín að hún hefði greint þeim frá því að slík fimm flokka stjórn væri hennar fyrsti kostur.
Spurð hvort hún ætlaði að funda með forystumönnum þessara flokka sagði hún það ekki standa til. Hún ætlaði að leyfa þessum degi að ljúka. Hann færi í fundi með forsetanum. Katrín sagðist einnig hafa lagt áherslu á það við forsetann að fleiri flokkar væru á þingi en áður, sem kallaði á það að unnið væri saman með öðrum hætti en áður hefði verið.
Katrín var einnig spurð hvort hún teldi líklegt að slíkt fimm flokka samstarf yrði að veruleika. Sagði hún engan hafa raunverulega lokað dyrunum á slíkt. „Fólk er að fara yfir málin hvert í sínum ranni en þetta er að minnsta kosti okkar fyrsta val.“ Spurð um mögulegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ítrekaði hún að VG teldi það ekki líklegt vegna ólíkra áherslna.