Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, telur að flokknum hefði gengið betur undir sinni stjórn, að því er haft er eftir honum í Fréttablaðinu í dag.
„Ég var búinn að leggja drög að því hvernig með öflugri kosningabaráttu við hefðum getað aukið fylgið um kannski fjögur prósentustig og svo kannski tvö í viðbót í kosningunum sjálfum. Við hefðum þá getað gert ráð fyrir 18 til 19 prósenta fylgi,“ hefur blaðið eftir Sigmundi Davíð, sem kveður útkomu kosninganna ekki hafa verið góða niðurstöðu fyrir Framsókn.
Framsóknarflokkurinn fékk 11,5% atkvæða á landsvísu í kosningunum á laugardag og átta þingmenn kjörna. Hann fékk 19 þingmenn kjörna árið 2013 og missir því ellefu þingmenn.
Framsóknarflokkurinn fékk hins vegar 20% fylgi í kjördæmi Sigmundar Davíðs, Norðausturkjördæmi og tvo þingmenn kjörna.