Samfylkingin verður ekki í næstu ríkisstjórn. Þetta sagði Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, eftir fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag. Hins vegar væri flokkurinn reiðubúinn að styðja minnihlutastjórn.
„Við erum ekki að fara í ríkisstjórn, það er augljóst mál. Við munum hins vegar styðja öll góð mál. Og við höfum auðvitað sagt það áður að verði möguleiki á einhvers konar umbótastjórn þá munum við styðja hana,“ sagði Oddný.
Oddný tilkynnti ennfremur, eins og mbl.is hefur greint frá, að hún ætlaði að hætta sem formaður Samfylkingarinnar.