Laun Loga hækkuðu um hálfa milljón

63 þingmenn sitja á Alþingi og þiggja þingfararkaup úr ríkissjóði.
63 þingmenn sitja á Alþingi og þiggja þingfararkaup úr ríkissjóði. mbl.is/Styrmir Kári

Mörgum hefur blöskrað ákvörðun kjararáðs um hækkun launakjara þingmanna, ráðherra og forseta Íslands. Miklu munar á kjörum alþingismanna fyrir og eftir úrskurð ráðsins, sem hækkaði þingfararkaup þeirra um 338 þúsund krónur á mánuði.

Frétt mbl.is: Hækkanirnar „algjört rugl“

Eflaust er um óvænta launahækkun að ræða fyrir marga nýkjörna þingmenn, sem ekki hafa séð fram á greiðslur af þessum toga þegar þeir buðu sig fram til þingmennsku fyrr í haust, og kannski einkum þá sem rétt svo náðu að tryggja sér sæti á þingi undir blámorgun.

Leit út fyrir minna þingfararkaup

Svo aðeins sé tekið dæmi um kjör þingmanna má nefna Loga Má Einarsson, arkitekt og oddvita Samfylkingar í Norðausturkjördæmi, sem tekur nú í fyrsta sinn sæti á Alþingi Íslendinga.

„Ég hangi von­andi inni - á horrim­inni, það verður varla meira en það,“ sagði Logi í samtali við mbl.is þegar klukkan var farin að ganga þrjú á kosninganóttinni sjálfri.

Svo fór að hann náði sæti á þingi, sem síðasti kjördæmakjörni þingmaður Norðausturkjördæmis. 

Þegar ljóst varð að Logi yrði þingmaður leit út fyrir að hann myndi fá að minnsta kosti 762.940 krónur í sinn hlut á mánuði, en þingfararkaup nam þá þeirri upphæð. Í kjölfar úrskurðar kjararáðs mun Logi þó, eins og aðrir þingmenn, fá 1.101.194 krónur á mánuði í þingfararkaup.

Kjörin verði í takt við kjör almennings

Í samtali við mbl.is í dag segir Logi að sér sýnist úrskurðurinn fela í sér talsvert meiri launahækkun en aðrir hópar á vinnumarkaði hafi verið að fá.

„Mér finnst hann dálítið hraustlegur, og ég held að það verði að finna þessum ákvörðunum, um kjör embættismanna og stjórnmálamanna, einhvern annan farveg sem tryggir að sátt geti verið um niðurstöðuna, og að hún verði meira í takt við það sem almenningur er að fá,“ segir Logi.

„Misskipting hefur verið að aukast. Launamunur hefur verið að aukast. Og það er eitthvað sem við jafnaðarmenn getum ekki sætt okkur við.“

Logi Már Einarsson.
Logi Már Einarsson.

Fær 50% álag á þingfararkaup

Ekki er öll sagan sögð, hvað varðar kjör þeirra sem sitja á Alþingi, og til nánari skýringar verður áfram haldið með dæmið:

Skjótt skipast veður í lofti. Í gær tók Logi við embætti formanns Samfylkingarinnar, eftir að Oddný Harðardóttir sagði sig frá embættinu, að loknum fundi sínum með forseta Íslands.

Frétt mbl.is: Oddný hættir sem formaður

Þar með hækka laun hans enn fremur, en samkvæmt 3. grein laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað fá þeir alþingismenn, sem eru formenn þeirra stjórnmálaflokka sem fengið hafa að minnsta kosti þrjá þingmenn kjörna, greitt 50% álag á þingfararkaup.

Hækkun þingfararkaups um 338 þúsund jafngildir því hækkun um 507 þúsund krónur í tilfelli Loga, líkt og annarra formanna stjórnmálaflokka á Alþingi.

Tæpara mátti vart standa, enda fékk Samfylkingin aðeins þrjá þingmenn kjörna, sem uppfyllir einmitt lágmark lagagreinarinnar.

Samkvæmt lögum greiðist þingfararkaup frá fyrsta degi eftir kjördag og til síðasta dags þess mánaðar er kjörtímabili eða þingsetu lýkur. Kaupið greiðist fyrsta hvers mánaðar fyrir fram.

Af því verður ekki annað ráðið en að nýkjörnir þingmenn hafi fengið greitt strax í dag, 1. nóvember, samkvæmt hinum nýja úrskurði.

Logi er búsettur á Akureyri og á því rétt á …
Logi er búsettur á Akureyri og á því rétt á frekari greiðslum til viðbótar þingfararkaupi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Húsnæðis-, dvalar- og ferðakostnaður greiddur

Ekki er þá allt upp talið í tilfelli Loga. Hann er skráður til heimilis á Akureyri, þar sem hann hefur gegnt starfi bæjarfulltrúa frá árinu 2010. Samkvæmt 6. grein áðurnefndra laga hefur hann því rétt á mánaðarlegum greiðslum fyrir húsnæðis- og dvalarkostnað í Reykjavík eða grennd.

Velji hann að fara að jafnaði á milli heimilis og Reykjavíkur á meðan þingi stendur á hann rétt á að fá endurgreiddan ferðakostnað, auk þriðjungs af þeirri greiðslu sem að ofan greinir.

Loks er heimilt að greiða honum 40% álag ofan á greiðslur fyrir húsnæðis- og dvalarkostnað, velji hann að halda annað heimili í Reykjavík eða í Suðvesturkjördæmi, til viðbótar við aðalheimili sitt á Akureyri.

Þá er rétt að geta þess að umræddar greiðslur, sem til koma vegna búsetu þingmanns á landsbyggðinni, eru ekki skattskyldar. Samkvæmt öllu ofantöldu geta greiðslur til Loga vegna þingmennsku hans numið allt að rúmlega tveimur milljónum króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka