Rúm 8% strikuðu Þorgerði Katrínu út

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert

Nafn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir, frambjóðanda Viðreisnar, var langoftast strikað út af kjörseðlum hjá kjósendum í Suðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum um síðustu helgi. Nafn hennar var strikað út eða fært neðar á lista 563 sinnum, eða af 8,21% þeirra sem kusu Viðreisn í kjördæminu.

Næstur á eftir Þorgerði Katrínu hjá Viðreisn kom Jón Steindór Valdimarsson með 20 útstrikanir.

Þetta kemur fram í skýrslu yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis til landskjörstjórnar og Hagstofu Íslands.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra  var næstoftast strikaður út eða færður neðar á lista í kjördæminu, eða 274 sinnum. Þar með var hann strikaður út af 1,52% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn.

Frétt mbl.is: Yfir 800 strikuðu Sigmund út

Vilhjálmur Bjarnason var næstoftast strikaður út hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins, eða 205 sinnum. Á eftir honum kom Jón Gunnarsson með 172 útstrikanir.

Eygló oftast strikuð út hjá Framsókn

Eygló Harðardóttir var langoftast strikuð út af kjörseðlinum í Suðurkjördæmi hjá kjósendum Framsóknarflokksins, eða 172 sinnum. Næstur á eftir henni var Willum Þór Þórsson með 27 útstrikanir.

Lítið var um útstrikanir hjá kjósendum Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna. Hjá Bjartri framtíð var Óttarr Proppé strikaður út oftast, eða 12 sinnum.  Sara Elísa Þórðardóttir var oftast strikuð út hjá Pírötum, eða 22 sinnum, og Ólafur Þór Gunnarsson var oftast strikaður út af kjörseðlinum hjá kjósendum Vinstri grænna, eða 22 sinnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert