Þrír óska eftir umboði

Forseti mun áfram ræða við forystumenn stjórnmálaflokkanna í dag. Hér …
Forseti mun áfram ræða við forystumenn stjórnmálaflokkanna í dag. Hér kemur Sigurður Ingi Jóhannsson til Bessastaða á sunnudag til að biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórnina. mbl.is/Árni Sæberg

Formenn þriggja stjórnmálaflokka sækjast eftir umboði til myndunar meirihlutastjórnar. Kom það fram í viðræðum sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, átti í gær við formenn flokkanna. Forseti mun ræða áfram við forystufólkið í dag með það fyrir augum að taka afstöðu til veitingar umboðs til stjórnarmyndunar á næstu dögum.

Formennirnir komu á fund forsetans, hver á fætur öðrum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, taldi eðlilegt að sér yrði falið umboð til stjórnarmyndunar. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lagði til að Bjarni fengi umboðið.

Tilbúin að standa utan stjórnar

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, kvaðst tilbúin að hafa forystu um myndun fimm flokka ríkisstjórnar, það er stjórnarandstöðuflokkanna að viðbættri Viðreisn. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, lagði til við forsetann að hann fengi umboðið og styður Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, það.

Fulltrúar Pírata lögðu til að mynduð yrði minnihlutastjórn VG, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og lýstu því yfir að þeir væru reiðubúnir að verja hana falli. Oddný G. Harðardóttir, fráfarandi formaður Samfylkingarinnar, sagði flokkinn reiðubúinn til að styðja minnihlutastjórn enda hygðist hann standa utan væntanlegrar ríkisstjórnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert