Yfir 800 strikuðu nafn Sigmundar út

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rétt tæp átján prósent kjósenda Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi strikuðu út nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar af kjörseðlinum eða færðu það neðar á listann samkvæmt upplýsingum frá landskjörstjórn. Samtals var nafn Sigmundur strikað 817 sinnum út. 

mbl.is hefur áður greint frá því að hátt hlut­fall út­strik­ana hafi verið hjá Framsóknarflokknum miðað við það sem áður hefur verið. 

Frétt mbl.is: Margar útstrikanir hjá Framsókn í NA

Haft var eftir Sigmundi Davíð í Fréttablaðinu í gær að hann teldi að flokkn­um hefði gengið bet­ur í kosningunum und­ir sinni stjórn, gera hefði mátt ráð fyrir 19% fylgi. 

Frétt mbl.is: Hefði farið með Framsókn í 19%

Nafn Þórunnar Egilsdóttur strikað út næstoftast

Nafn Þórunnar Egilsdóttur var strikuð út næstoftast hjá Framsóknarflokknum í kjördæminu, eða 57 sinnum. Næst á eftir henni kom Líneik Anna Sævarsdóttir með 45 útstrikanir og loks Sigfús Arnar Karlsson með 38. 

Nafn Kristjáns Þórs Júlíussonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins og heilbrigðisráðherra, var strikað 64 sinnum út af kjörseðlinum en Njáll Trausti Friðbertsson kom næstur með 38 útstrikanir. Þá var Arnbjörg Sveinsdóttir með 32 útstrikanir en Valgerður Gunnarsdóttir með 27. Bæði nöfn Elvars Jónssonar og Melkorku Ýrar Yrsudóttur voru strikuð út 12 sinnum hvort. 

Frétt mbl.is: Mjög hátt hlutfall útstrikana

Nafn Steingríms strikað 155 sinnum út

Hjá Vinsti grænum var talsvert um útstrikanir í Norðausturkjördæmi. Nafn Steingríms J. Sigfússonar var oftast strikað út eða fært neðar á listann, eða 155 sinnum sem jafngildir 3,14% atkvæðatölu listans. Björn Valur Gíslason fékk 127 útstrikanir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ellefu og Ingibjörg Þórðardóttir aðeins tvær. 

Nöfn þriggja Pírata voru strikuð út af kjósendum eða færð neðar á listann, eða þeirra Einars Aðalsteins Brynjólfssonar 13 sinnum, Guðrúnar Ágústu Þórdísardóttur 12 sinnum og Gunnaru Ómarssonar 14 sinnum. 

Logi hæstur hjá Samfylkingunni

Á lista Samfylkingarinnar voru einnig nöfn þriggja frambjóðenda strikuð út í kjördæminu, Loga Más Einarssonar 21 sinni, Erlu Bjargar Guðmundsdóttur fimm sinnum og Hildar Þórisdóttur fjórum sinnum. 

Af flokkunum sem náðu inn á þing fékk Viðreisn fæstar útstrikanir. Nafn Benedikts Jóhannessonar formanns var samtals strikað út átta sinnum en Hildar Betty Kristjánsdóttur og Jens Hilmarssonar tvisvar sinnum hvort. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert