Arkitekt, pólitíkus, dansari

Logi Már Einarsson er 9. þingmaður Norðausturkjördæmis og formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson er 9. þingmaður Norðausturkjördæmis og formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Alþingi á að endurspegla þarfir og óskir fólksins, þess vegna þurfum við meiri fjölbreytni á þing. Við þurfum karla, við þurfum konur, við þurfum fólk á öllum aldri með ólíkan bakgrunn. En umfram allt þurfum við hugmyndaríkt fólk með sjálfstæðar skoðanir, sem þorir að standa gegn flokksræðinu þegar það á við.“

Þetta sagði Logi Már Einarsson, núverandi formaður Samfylkingarinnar, í ræðu á kynningarfundi frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi árið 2009.

Nokkurt vatn hefur runnið til sjávar síðan en eftir atburði síðustu daga spyrja eflaust margir: Hver er þessi Logi?

Logi Már fæddist 21. ágúst 1964 á Akureyri og útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri 1985. Hann er menntaður arkitekt og nam við Arkitektur- og designhogskolen i Oslo, AHO. Hann útskrifaðist þaðan 1992.

Sem ungur maður vann Logi við bensínafgreiðslu og á netabát, en lengst sem verkamaður hjá Akureyrarbæ. Að loknu námi stofnaði hann arkitektastofuna Kollgátu á Akureyri og hefur rekið síðan.

Logi var um tíma formaður Arkitektafélags Íslands og fór m.a. fyrir félaginu þegar það barðist fyrir því að efnt yrði til samkeppni um hönnun fangelsisins á Hólmsheiði, í stað þess að auglýsa verkið í alútboði.

Hann hefur verið bæjarfulltrúi á Akureyri síðan 2010 en kvaddi þann vettvangi á bæjarstjórnarfundi í gær. Logi var varaþingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi í október 2010, apríl 2011, október og desember 2011 og janúar til mars 2013, þegar hann tók sæti fyrir Kristján L. Möller.

Logi á arkitektastofu sinni nyrðra í gær. Blaðamaður Morgunblaðsins og …
Logi á arkitektastofu sinni nyrðra í gær. Blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is hitti á hann þar sem Logi var að pakka niður og undirbúa flutning suður í kjölfar kosninga. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Logi var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar í júní sl. og tók við formannsembættinu á mánudag, eftir að Oddný G. Harðardóttir sagði af sér í kjölfar alþingiskosninganna um helgina.

„Þetta er al­farið henn­ar ákvörðun. Hún axl­ar ábyrgð og mark­ar þannig tíma­mót í ís­lensk­um stjórn­mál­um. Þar með er ekki sagt að hlut­irn­ir séu svo ein­fald­ir að hún beri ábyrgð á ósigr­in­um, það ger­um við öll,“ sagði Logi um Oddnýju á mánudag.

Logi svaraði krossaspurningum DV fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 og sagðist m.a. ósammála því að Íslendingar byggju við jafnrétti þar sem konur og karlar byggju ekki við jafna stöðu og tækifæri.

Þá sagðist hann mjög ósammála þeirri fullyrðingu að kaupsýslumenn og framleiðendur væru mikilvægari samfélaginu en rithöfundar og listamenn, og ósammála því að því frjálsari sem markaðurinn væri, því frjálsara væri fólk.

Foreldrar Loga eru Einar heitinn Helgason myndlistarkennari og knattspyrnuþjálfari, og Ásdís Karlsdóttir íþróttakennari. Eiginkona hans er Arnbjörg Sigurðardóttir, hæstaréttarlögmaður og flautuleikari. Þau eiga tvö börn.

Á heimasíðu Samfylkingarinnar á Akureyri segist Logi eiga þrjú aðaláhugamál; íþróttir, myndlist og ferðalög með fjölskyldunni. Þá má til gamans geta að hann starfaði um nokkurra ára skeið með hljómsveitinni Skriðjöklum, en á Facebook-síðu sveitarinnar er Logi sagður annar af tveimur dönsurum bandsins.

Logi Már við innganginn í gömlu kartöflugeymsluna efst í Gilinu …
Logi Már við innganginn í gömlu kartöflugeymsluna efst í Gilinu á Akureyri, þegar hann festi kaup á henni árið 2004 og ákvað að setja þar upp arkitektastofu sína. mbl.is/Kristján Kristjánsson
Logi fyrir utan Kollgátu árið 2006, eftir að hann fékk …
Logi fyrir utan Kollgátu árið 2006, eftir að hann fékk byggingarlistarverðlaun Akureyrar fyrir endursköpun sína á gömlu kartöflugeymslunni í Gilinu og setti þar upp arkitektastofu sína. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Gleði á kosninganótt eftir kosningar til sveitarstjórna 2014. Oddvitar flokkanna …
Gleði á kosninganótt eftir kosningar til sveitarstjórna 2014. Oddvitar flokkanna þriggja sem mynda meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar; frá vinstri: Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki, Matthías Rögnvaldsson, L-lista, Logi Már Einarsson, Samfylkingu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert