Þegar þykir ljóst að erfitt og flókið verður að semja um myndun nýrrar ríkisstjórnar, undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Þingmenn sem rætt var við í gær eru sammála um að allir flokkar, hverjir sem það verða, sem munu mynda nýja ríkisstjórn verði að gefa eitthvað eftir af stefnumálum sínum.
Nást verði eins konar samnefnari um lykilmál sem skipti grundvallaratriði en taka önnur mál, sem skipti minna máli, út fyrir sviga þannig að hver þingflokkur eða einstakir þingmenn flytji slík mál á Alþingi án þess að um stjórnarfrumvörp verði að ræða.
Þannig geti ólíkir þingmeirihlutar myndast á Alþingi um einstök mál án þess að þingmeirihluti nýrrar ríkisstjórnar verði í hættu, segir í umfjöllun um stjórnarmyndunarmálin í Morgunblaðinu í dag.