Boltinn er hjá Bjarna

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Golli

Við höfum ekki talað saman í dag og það var ekki neitt plan í gær,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is. Óttarr, Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson, ræddu saman í gær en framhaldið er óljóst.

Flokkarnir sem ræddu saman í gær, Viðreisn, Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur, eru með 32 menn á þingi og því ekki nema um eins manns meirihluta að ræða. Óttar segir mikið bera á milli flokkanna en það hafi verið vitað fyrir kosningarnar.

„Ég held að þó að það sé komin rúm vika frá kosningum þá séu menn að reyna að átta sig á þessari stöðu. Hún er að mörgu leyti dæmalaus,“ segir Óttarr og bendir á að tímasetning kosninganna, að hausti, sé óvenjuleg:

„Það var kosið á óvenjulegum tíma og nú eru ekki sömu rólegheit og þegar kosið er á vori. Svona ákvarðanir á ekki að taka á hlaupum og ég held að það sé að sumu leyti hollt fyrir okkur að staðan sé snúin og það þurfi að vanda sig betur en venjulega.

Óttarr svarar því játandi þegar blaðamaður spyr hvort boltinn sé nú hjá Bjarna. „Hann er með stjórnarmyndunarumboðið hjá forseta þannig að boltinn er þar. Síðan held ég að allir flokkar séu á svipuðum stað, að reyna að átta sig á stöðunni og impra á sínum áherslum eftir kosningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert