Gæti dregið til tíðinda á næstu dögum

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ekki sterk stjórn, eins og Bjarni hefur lagt áherslu á, ef þetta er meiningin,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, í samtali við mbl.is. Formenn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hittust á fundi í gær en Bjarni er þeirrar skoðunar að best sé að mynda þriggja flokka stjórn.

Áðurnefndir flokkar eru með 32 menn á þingi og er það minnsti möguleiki meirihluti. Engar formlegar stjórnarmyndunarviðræður eru hafnar en Bjarni sagði í samtali við RÚV í morgun að formlegar viðræður gætu hafist á næstu dögum. Hann reiknar með að upplýsa forseta Íslands um gang mála í þessari viku.

Bjarni ræddi við Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson í gær.
Bjarni ræddi við Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grétar bendir á að hægt væri að mynda þriggja flokka stjórn með stuðningi annars eða annarra flokka. „Mér finnst umræðan hafa snúist dálítið mikið um það að það yrði þá samið við einhvern einn flokk ef sú yrði raunin. Í Svíþjóð hafa menn myndað minnihlutastjórn sem  hefur tryggt sér stuðning mismunandi flokka við mismunandi mál. Það var ekki einhver einn sem var samið við. Það fór því eftir málum og málaflokkum. Það er einn möguleiki sem við höfum fordæmi fyrir frá Norðurlöndunum: semja við fleiri en einn.

Bjarni fékk stjórnarmyndunarumboðið hjá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á miðvikudaginn í síðustu viku. Grétar telur að Bjarni hafi allavega haft viku til að segja til um hvort hann teldi sig geta myndað stjórn eða ekki. Guðni og Bjarni ræddu saman í síma á sunnudagskvöld en ekki hefur komið fram hvað fór þeirra á milli.

Það er ekkert útilokað í pólitík

Það er ekkert óeðlilegt í þessari stöðu að Bjarni hafi fengið viku til þess að geta sagt af eða á hvort hann geti hafið stjórnarmyndunarviðræður. Ég yrði ekkert hissa þótt það kæmi eitthvað af eða á um það á næstu tveimur sólarhringum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagðist í samtali við mbl.is í gær ekkert hafa heyrt í Bjarna síðan fyrir helgi. Steingrímur J. Sigfússon, odd­viti Vinstri grænna í Norðaust­ur­kjör­dæmi, sagði að flokk­ur­inn gæti ekki skellt í lás á fyr­ir fram ákveðna flokka í stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum.

Grétar telur hæpið að Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkur verði saman í ríkisstjórn, í það minnsta í fyrstu tilraun. „Ef stjórnarmyndun lendir í einhverjum ógöngum og það stefnir í kreppu þá er það nú bara þannig að menn munu væntanlega skoða stöðuna í öðru ljósi. Ég held að þetta geti ekki komið á borðið í fyrstu atrennu. Ég held að það myndi valda úlfúð, sérstaklega í VG, ef þeir myndu ekki allavega reyna eitthvað annað fyrst áður en þeir færu í beinar viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekkert útilokað í pólitík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert