„Það er engin staða. Ég heyrði í Bjarna í gærkvöldi og hann ítrekaði að hann væri að hugsa möguleika og ætlaði að gera upp hug sinn í vikunni, líkt og komið hefur fram opinberlega,“ segir Benedikt Jóhannsson, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is spurður um stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt ræddu saman á mánudag en síðan hefur ekki verið haldinn fundur. Benedikt sagði engan fund á dagskrá en hann býst við því að heyra í Bjarna í dag eða á morgun:
„Ég býst við að heyra frá honum en veit ekkert hvað hann mun segja.“
Benedikt er ekki svo viss um að jafn mikið beri í milli flokkanna og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarna daga. „Það er auðvitað munur, skoðanamunur. Mér heyrist meiri munur í frásögnum manna sem voru ekki á fundinum heldur en þeirra sem voru á honum. Það er ekki komið á það stig ennþá að menn sjái hvort það sé hægt að brúa þann stefnumun.“
Hann segir of snemmt að velta því fyrir sér hvort Viðreisn sé tilbúin í formlegar viðræður með Bjartri framtíð við Sjálfstæðisflokkinn um myndun nýrrar ríkisstjórnar. „Það er ekki komið að því. Maður yrði að heyra í honum [Bjarna] og heyra undir hvaða formerkjum það yrði. Menn fara ekki í viðræður nema þeir haldi að þeir nái einhverjum stefnumálum fram. Það er aðalatriðið.“