Viðreisn „meira spurningarmerki“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þriggja flokka stjórnarsamstarf sé ekki án fordæma hér á landi. Einnig bendir hann á að samstarf Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar hafi gengið vel á sveitarstjórnarsviðinu.

„Samstarfið með Bjartri framtíð hefur gengið mjög vel í þeim sveitarfélögum sem við höfum starfað með þeim í. Viðreisn er eðli málsins samkvæmt miklu meira spurningarmerki,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is en hann bætir við að það megi ekki gefa sér neina niðurstöðu fyrir fram:

Það liggur fyrir að valmöguleikarnir eru fáir ef menn vilja mynda stjórn í landinu og enginn fullkominn, frekar en fyrri daginn.

Sjálfstæðisflokkur, Björt framtíð og Viðreisn eru með 32 þingmenn og hefðu því einungis eins manns meirihluta. Guðlaugur segir að tveggja flokka stjórnarsamstarf sé æskilegra en það sé ekki í boði núna.

Stjórnarsamstarf tekur alltaf á og það er betra að hafa tveggja flokka stjórn frekar en þriggja flokka en sá valkostur er ekki uppi á borðum núna,“ segir Guðlaugur en hann kveðst ekki vita hvert framhaldið verður í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert