„Ég tel að við eigum enga samleið,“ segir Páll Valur Björnsson, stjórnarmaður í Bjartri framtíð og fyrrverandi alþingismaður, í samtali við Fréttablaðið vegna viðræðna um myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
„Það var kosið út af Panamaskjölunum og þar var Bjarni,“ segir hann og bætir við að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hefði átt að vera síðasti kosturinn í stjórnarmyndunarviðræðum.
„Ég hef ekkert á móti fólkinu í honum, kynntist mörgu frábæru fólki þarna sem þingmaður og eignaðist góða vini,“ segir Páll Valur. Hann telur formann Sjálfstæðisflokksins vera á móti kerfisbreytingum og það getur hann illa sætt sig við. „Þeir sviku Evrópusambandsloforðið og ég er ekkert tilbúinn til þess að fyrirgefa það strax.“
Páll Valur segist hafa komið skoðun sinni á framfæri á stjórnarfundi flokksins í síðustu viku. Hann segist bera mikla virðingu fyrir Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, og treysta honum. Ef hann stendur fast á sínum prinsippum, þá enda þessar stjórnarmyndunarviðræður fljótlega, er haft eftir Páli í Fréttablaðinu í dag.