Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, fer á fund forseta Íslands í dag Guðna Th. Jóhannessonar, á Bessastöðum í dag klukkan 13 en búist er við því að forsetinn veiti Katrínu umboð til stjórnarmyndunarviðræðna. Birgitta Jónsdóttir segir Pírata vilja taka ábyrgð og sæti í ríkisstjórn ef svo ber undir. Þetta kemur fram á Facebook-síðu hennar.
Fái Katrín umboðið hefur hún sagt að hún vilji skoða möguleikann á vinstristjórn en ætlar engu að síður að ræða við formenn allra flokka.
„Fari svo að ég fái umboðið mun ég að sjálfsögðu ræða við formenn allra flokka. Ég vænti þess að fara yfir stöðuna með öllum. Það liggur fyrir hvað við höfum metið sem fyrsta valkost en ég vænti þess að fari þetta svona fari ég yfir stöðuna með öllum,“ segir Katrín.
Birgitta segir á Facebook að Píratar hafi boðist til að styðja minnihlutastjórn vegna þess að Viðreisn hafði gefið það út að þeir vildu ekki vera með í því sem þeir kölluðu Píratabandalagið, þ.e.a.s fyrrverandi stjórnarandstöðuflokkarnir.
„Okkar tilboð um minnihlutastjórn var til að höggva á þann hnút. Núna eru aðrar forsendur og Viðreisn búin að koma sér í ómögulega stöðu, því þeir vilja ekki vinna með neinum mögulegum meirihluta,“ skrifar Birgitta.