Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur boðað formenn og fulltrúa Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar á sinn fund kl. 13 á morgun.
Fulltrúar flokkanna funduðu í dag og voru almennt nokkuð bjartsýnir að fundinum loknum.
„Þetta var góður fundur; við fórum vítt og breitt sem gerir mann bjartsýnan á framtíðina. Við vorum að fara í ákveðna hringi og velta fyrir okkur til dæmis heilbrigðismálunum og það var samstaða um að þar þyrfti að gera betur en erum ekki komin í nákvæma hluti,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.