Fundi flokkanna fimm um grundvöll fyrir ríkisstjórnarsamstarfi lauk um hálffjögurleytið í dag. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði að ákvörðun um formlegar viðræður komi í ljós eftir næsta fund sem á sér stað á morgun en hún mun þurfa að gera forseta grein fyrir gangi mála eftir helgi.
Frétt mbl.is: Funda um samstarfsgrundvöll
Katrín boðaði til fundar klukkan eitt í dag með fulltrúum Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar. Hún fékk stjórnarmyndunarumboð frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta á miðvikudag eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sleit viðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn á þriðjudag.
„Við erum búin að sitja hér og fara yfir ýmis stórmál; til dæmis heilbrigðismál, skattamál, sjávarútvegsmál og fleira. Það sem gerist næst er að við förum til okkar baklands og síðan ætla formenn og fulltrúar flokkanna að hittast á morgun,“ sagði Katrín Jakobsdóttir eftir fundinn. „Á morgun mun skýrast hvort af þessu verður eða ekki.“
Smári McCarthy sem er í forsvari fyrir Pírata í viðræðunum ásamt Birgittu Jónsdóttur og Einari Brynjólfssyni hljómaði bjartsýnn á framhaldið.
„Þetta var rosalega jákvæður fundur. Auðvitað voru atriði sem einhverjir voru ekki algjörlega sammála um en það var mín tilfinning að við gætum komist auðveldlega gegnum þau mál. Það var smá mismunur á nálgunum fólks, til dæmis í skattamálum og þess háttar, en allt þess eðlis að við hljótum að geta komist að niðurstöðu.“
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, taldi að fundi loknum að ekkert væri því til fyrirstöðu að flokkarnir haldi áfram að ræða sín á milli miðað við stöðu mála eftir fundinn.
„Fólk fór yfir helstu mál og flokkarnir fóru yfir sína afstöðu. Þetta voru ekki samningaviðræður í þeim skilningi heldur var áréttað hvar flokkarnir stæðu. Eðli málsins samkvæmt er engin niðurstaða,“ sagði Benedikt. „Það virtist ekki óyfirstíganlegt á þessum fundi. Auðvitað er munur og það var vitað fyrir fram en andinn var mjög góður. Ég sá ekkert í dag sem mælir á móti því að við getum haldið áfram að tala saman.“
Óttarr Proppé, formaður Bjartar framtíðar, var ásamt Benedikt hluti af stjórnarmyndunarviðræðunum við Sjálfstæðisflokkinn áður en Bjarni Benediktsson formaður sleit þeim á þriðjudaginn.
„Þetta var góður fundur, við fórum vítt og breitt sem gerir mann bjartsýnan á framtíðina.Við vorum að fara í ákveðna hringi og velta fyrir okkur til dæmis heilbrigðismálunum og það var samstaða um að þar þyrfti að gera betur en erum ekki komin í nákvæma hluti,“ sagði Óttarr.