Vinstri-græn, Björt framtíð, Píratar, Samfylkingin og Viðreisn ætla að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna.
„Það eru allir til í að fara í formlegar viðræður. Við munum mynda málefnahópa sem vinna næstu daga og þá skýrist hvort að það sé grundvöllur fyrir ríkisstjórnarssamstarfi,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is. Hún ætlar að hafa samband við Guðna Th. Jóhannesson forseta í dag til að gera honum grein fyrir stöðu mála.
Frétt mbl.is: Funda um framhaldið
Flokkarnir fimm hafa fundað í dag og í gær til að taka afstöðu til þess hvort hefja eigi formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Að sameiginlegum fundi loknum í dag samþykktu þingflokkar flokkanna fimm að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður.
Í tilkynningu sem Vinstri græn sendu frá sér kemur fram að málefnahópar flokkanna muni á næstu dögum vinna að því að fara yfir málefnagrundvöll hugsanlegs stjórnarsamstarfs þessara flokka. Sú vinna hefjist á morgun.