„Allir halda spilunum þétt að sér.“ Þessi stjórnmálafrasi er einn þeirra sem hefur verið óspart notaður eftir alþingiskosningarnar þegar flokkarnir sjö sem kosnir voru á Alþingi reyna að mynda ríkisstjórn. Hvað leynist í frasabók stjórnmálamannsins?
Baggalúturinn Bragi Valdimar Skúlason hefur mikinn áhuga á orðbragði og ræddi við blaðamann mbl.is um nokkra af þeim skemmtilegu frösum sem stjórnmálafólkið bunar út úr sér þessa dagana.
„Það er alltaf verið að freista einhvers; freista þess að mynda ýmislegt. Síðan er alltaf verið að bíða eftir línunum, að þær verði skýrari eða að línurnar fari að skýrast. Það kemur hvergi fram hvaða línur það eru og ég veit ekki hvort það er sjónvarpið uppi í Alþingi eða hvað,“ sagði Bragi í samtali við mbl.is.
„Ég get svo sem sagt að í þeim samtölum sem ég hef átt við formenn annarra flokka þá hafa línurnar smám saman verið að skýrast,“ sagði Bjarni Benediktsson fyrir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins 9. nóvember.
„Það eru allir að þreifa á hvor öðrum. Það er svolítið nýtt held ég, þreifingar innan flokkanna og svo er mikið verið að þreifa á formönnunum. Ég veit ekki alveg hvernig það fer fram. Einhvers konar þukl,“ sagði Bragi.
„Ég hef ekkert heyrt í hvorki Benedikt né Óttari,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is, einnig 9. nóvember, spurð um mögulegar þreifingar vegna stjórnarmyndunar.
Töluvert er fjallað um að eitthvað sé uppi á borðinu. Bragi telur að líklega sé átt við borðið þar sem þau sitja og spjalla saman. „Það er reyndar aldrei neitt uppi á borðinu þegar maður sér myndir af þeim. Það er spurning hvort eitthvað kemst upp á þetta blessaða borð. Þau segja oft að eitthvað sé uppi á borðinu sem er augljóslega lygi. Ég sá reyndar sólgleraugun hennar Katrínar uppi á borðinu en annars hef ég ekki séð neitt þar.“
„Við myndum bara sjá þær og mæta að borðinu. Mér heyrist nú að forsendurnar séu kannski að breytast frá einum degi til næsta, kannski eftir því sem möguleikunum fækkar á borðinu. Þá verða til nýir,“ sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, á þriðjudag eftir að slitnaði upp úr viðræðum Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks.
Einhverjir gætu haldið að stjórnmálafólkið væri að spila póker, sem stjórnarmyndunarviðræðurnar eru að vissu leyti. Þau halda í það minnsta spilunum þétt að sér. „Spilin sjást heldur ekki. Það er spurning hvort þessar línur séu eitthvað að skýrast á þessum spilum,“ sagði Bragi
„Fólk er að tala saman og allir halda spilunum þétt að sér. Svo eru alls konar hugmyndir fram og til baka,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is 7. nóvember.
Óyfirstíganlegur ágreiningur er gamall og góður frasi. Lítið virðist hafa heyrst af honum en Bragi hefur sínar skýringar á því. „Það er ekki mikið um hann, þannig að þau virðast geta stigið yfir ágreininginn. Þetta er einhvers konar tarsan-leikur í Alþingishúsinu.“
Að lokum telur Bragi að það mætti gera stjórnarmyndunarumboðið að einhverjum ákveðnum hlut. Eitthvað áþreifanlegt sem fólk væri að rétta sín á milli:
„Það mætti vera einhver taska, stjórnarmyndunarkit. Þar væri umboðið; gullkefli sem þau væru að rétta á milli. Þar væri fullt af skýrum línum og einhverjir hanskar til að þreifa og spilastokkur. Ég held að þetta myndi ganga betur ef þetta væri skýrara. Það verður að útbúa stjórnarmyndunartösku.“