Agnes Bragadóttir Hjörtur J. Guðmundsson Kristján H. Johannessen
Fulltrúar Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar hafa ákveðið að taka upp þráðinn að nýju og reyna að mynda fimm flokka ríkisstjórn og fá Vinstri græn til liðs við sig.
Í umfjöllun um tilraunir þessar í Morgunblaðinu í dag segir, að í forystuliði Vinstri grænna sé hins vegar enginn áhugi á því að hefja slíkar viðræður. Komi afsvar frá VG er heldur ekki áhugi innan Framsóknarflokksins að fara í stjórn með áðurnefndum flokkum.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir stjórnarmyndun farna að taka „dágóðan tíma“ nú þegar fimm vikur eru liðnar frá kosningum. „Ef menn ætla að taka annan hring þá hlýtur spurningin að vera sú; hvaða formaður ætlar að vera fyrstur og slaka til? Menn geta ekki bara staðið, horft hver á annan og beðið eftir því að hinn taki af skarið,“ segir Grétar Þór í Morgunblaðinu.