Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði í Vikunni hjá Gísla Marteini á RÚV í kvöld að mjög góðar líkur væru á því að ný ríkisstjórn fimm flokka yrði mynduð á næstu viku.
Píratar, Samfylking, Björt framtíð, Viðreisn og Vinstri græn hafa verið í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum síðustu vikuna, síðan Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Birgittu umboð til stjórnarmyndunar.
Birgitta ræddi um viðræðurnar, sagði þær ganga vel og einungis vantaði herslumuninn upp á hjá flokkunum. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í samtali við mbl.is í kvöld að framhald viðræna gæti skýrst um helgina.
Gísli Marteinn spurði Birgittu hverjar líkurnar væru á því að ný ríkisstjórn yrði mynduð fyrir næsta föstudag. „Ég myndi skjóta á svona 90%,“ sagði Birgitta en hún sagðist vera mjög bjartsýn manneskja.
„Ég myndi aldrei nenna að sitja á svona fundum ef ég sæi engan tilgang með þeim,“ bætti hún við en óformlegir fundir halda áfram á morgun.