VG, Framsókn og Samfylking hafa rætt saman

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Golli

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, staðfestir að Vinstri græn og Framsóknarflokkur hafi rætt saman síðustu daga. Fram kemur í Morgunblaðinu að for­ystu­menn Fram­sókn­ar­flokks og Vinstri grænna hafi síðustu daga átt sam­töl um hvort flokk­ar þeirra geti sam­an verið val­kost­ur í stjórn­ar­sam­starfi við Sjálf­stæðis­flokk­inn.

Frétt mbl.is: Framsókn og VG vilja viðræður við Sjálfstæðisflokk

„Ég get staðfest það að við og Framsóknarmenn og reyndar Samfylkingarfólk líka höfum verið að tala óformlega saman um þær félagslegu áherslur sem þessir þrír flokkar geta sameinast um. Við fundum það í þessari þingvinnu að það var ástæða til að spjalla aðeins saman um þetta hvort sem það væri inn í stjórnarmyndun eða stjórnarandstöðu. Þessar samræður hafa verið með óformlegum hætti,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Sjálfstæðisflokkur í öðrum viðræðum

Aðspurð hvort áðurnefndir flokkar stefndu á stjórnarmyndunarviðræður með Sjálfstæðisflokknum segir Katrín að það sé ekki við hæfi að svara þeirri spurningu á þessari stundu:

„Sjálfstæðisflokkurinn er í öðrum viðræðum og við teljum að það eigi ekki að vera að trufla þær viðræður. Þannig hefur þetta samtal verið okkar á milli um hvað flokkarnir þrír eiga sameiginlegt og hvað ekki,“ segir Katrín en Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður í dag.

Áður höfðu VG, Viðreisn, Björt framtíð, Samfylking og Píratar tvívegis reynt að mynda fimm flokka ríkisstjórn, án árangurs og þetta er í fyrsta skipti síðan kosið var 29. október sem Framsóknarflokkur er í einhverjum viðræðum.

„Þetta er meiri umræða sem byggir á því að þessir flokkar hafa áður starfað saman í pólitíska landslaginu. Framsókn var auðvitað ekki aðili að þessum fimm flokka viðræðum sem við vorum í og okkur fannst ágætt að eiga þetta samtal.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert