Hefur ekkert á móti konum

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að það verði erfitt að vera með einungis eins mann meirihluta í ríkisstjórn. Stofnanir flokkanna þriggja í stjórnarmyndunarviðræðum, Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, koma saman annað kvöld til að samþykkja þátttöku flokkanna í ríkisstjórn.

„Það eru auðvitað skiptar skoðanir um allt en hann [Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins] hefur umboð til að fara í þetta og hann lýkur þessu eins og hann vill ljúka þessu. Annaðhvort samþykkir flokksráðið þennan ríkisstjórnarsáttmála eða ekki,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is. Þingmenn Sjálfstæðisflokks funduðu í rúmlega þrjár klukkustundir í gær þar sem Bjarni kynnti gang stjórnarmyndunarviðræðna fyrir þingflokknum.

Talið er að Sjálfstæðisflokkur fái fimm ráðherraembætti en aðspurður segist Brynjar ekkert sérstaklega sækjast eftir því að verða ráðherra. „Ég fór nú í einhvern útvarpsþátt á föstudaginn sem hefur valdið usla eins og alltaf þegar maður opnar munninn. Þar er maður þó bara að segja það sem blasir við öllum. Ég hef sagt þá skoðun að ef ég er að ráða fólk í svona störf þá ræð ég eftir því hversu mikið umboð það hefur frá sínum kjósendum og þekkingu og reynslu. Þessi tvö atriði vega þyngst í mínum huga en önnur sjónarmið eru greinilega meira áberandi.“

Spurður hvort hin sjónarmiðin, sem Brynjar talar um, séu þau að það eigi að vera jafnt hlutfall karla og kvenna í ráðherraembætti, segist Brynjar ekki hafa hugmynd um hvort einhver kona verði ráðherra.

Myndi ekki sækjast eftir fyrirsætustarfi

Hann má alveg hafa konur mín vegna en ég vil helst að þær hafi þá umboð frá flokksmönnum og þekkingu og reynslu. Menn mega ekki skilja það svo að ég sé á móti konum.“

Brynjar bætir við að aðrir eiginleikar gætu skipt meira máli í önnur störf, sem hann myndi ekki sækjast eftir. „Ef menn ætluðu að ráða fyrirsætu þá myndi ég auðvitað ekki reyna að ná því en þá yrðu önnur sjónarmið að ráða; einhver fegurð og nettleiki. Þetta er ekki flókið í mínum huga en það kemur í ljós hvað hann gerir.

Brynjar hefur áður lýst því yfir að það verði erfitt að starfa í ríkisstjórn með eins manns meirihluta á þingi og stendur við þá skoðun. „Mér líst ekkert á það og það verður erfitt. Sérstaklega þegar þú ert með mjög óvant fólk í hinum þingflokkunum, það segir sig bara sjálft. Þetta verður erfitt en það getur orðið til þess að menn þjappi sér betur saman og standi sig betur, það má vel vera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert