Hefur áhyggjur af landsbyggðinni

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir margt gott í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Hann hefur þó áhyggjur af því að landsbyggðin verði útundan.

„Ég vil byrja á því að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og hún gerir vonandi gott fyrir land og þjóð. Hún tekur auðvitað við á óvenjulega góðum tímum efnahagslega og atvinnulega. Stjórnarsáttmálinn ber keim af því,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Tvö stefnumál Framsóknar

Hann býst við því að allir flokkar séu sammála um uppbyggingu í heilbrigðimálum, menntamálum og samgöngumálum. „Þess vegna líst mér ágætlega á það.“ Sigurður tók eftir tveimur af stefnumálum Framsóknarflokksins í sáttmálanum. „Endurskoðun peningastefnu og stöðugleikasjóður sem sveiflujafnari er hluti af þeim efnahagsmálum sem ný ríkisstjórn ætlar að beita sér fyrir. Ég vonast til að þetta gangi allt saman vel.“

Ekki miklir landsbyggðaflokkar

Hann hefur áhyggjur af áherslum, eða áhersluleysi, flokkanna gagnvart landsbyggðinni. „Þessi stjórn hefur svona í ljósi stefnumála flokkanna, ekki síst þessara nýju sem koma inn í ríkisstjórn, ekki lagt mikla áherslu né fengið mikið fylgi á landsbyggðinni. Ég hef áhyggjur af þeim áherslum, eða áhersluleysi, sem þeir setja á uppbyggingu Íslands alls sem einnar þjóðar.“

Sigurður segir að það sé margt sem ekki sé í sáttmálanum sem hefði mátt vera þar. „Ég tók ekki eftir miklu um byggðamál. Þetta er eitt stærsta verkefnið að tryggja að allir landsmenn búi við sambærilegar aðstæður, óháð því hvar þeir búa og hvaða atvinnugrein þeir stunda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert