Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefði viljað sjá sterkari áherslur í velferðarmálum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem var undirritaður í dag.
„Það fyrsta sem maður sér er að sáttmálinn er almennt orðaður í mörgum málum. Þannig að það er ekki margt mjög haldfast í honum. Það vekur auðvitað athygli að það virðist vera tekin upp óbreytt ríkisfjármálastefna frá fyrri ríkisstjórn. Það er talað heilmikið um uppbyggingu innviða en líka sagt að hún eigi bara að vera fjármögnuð í gegnum hagsveifluna í raun og veru,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.
Hún bætir því við að ekki sé talað um að styrkja tekjugrunn ríkisins. „Auðvitað hefði ég viljað sjá miklu sterkari áherslur í velferðarmálum. Það er ekkert rætt um húsnæðismál, það er ekki talað um lengingu fæðingarorlofs, svo dæmi sé tekið. Mér finnst verulega skorta á það fyrir utan að það eru slegnir einkarekstrartónar til að mynda í kaflanum um menntamál. Það kemur kannski ekki á óvart frá ríkisstjórn sem er svona samansett.“
Katrín segir að auðvitað séu ágætis atriði í sáttmálanum inni á milli. Henni finnst að auðvitað eigi að standa að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og spítalans eins og fjallað er um. „Maður veltir fyrir sér fjármögnun uppbyggingarinnar, sem talað er um. Það eru mörg markmið í þessum sáttmála en maður veltir fyrir sér hvernig á að standa að fjármögnun þeirra markmiða,“ segir Katrín.