Þakklát fyrir ánægða viðskiptavini

Fasteignasalan Perla Investments var stofnuð fyrir 24 árum af Auði Hansen og eiginmanni hennar, Orra Ingvasyni, og á þeim tíma hefur starfsfólkið aðstoðað fjöldamarga Íslendinga við að kaupa fasteign á Spáni. Það hefur lengi verið vinsælt að kaupa sér fasteign á Spáni og Auður talar um að aðsóknin sé sífellt að aukast. „Ég hef tekið eftir að það er orðið vinsælla hjá ungu fólki að flytja til Spánar og hefja nýtt líf. Þetta er fólk sem neitar að taka þátt í að borga húsnæðislánin sín á Íslandi fjórum sinnum, fólk sem hefur upplifað gjaldfellingu krónunnar með reglulegu millibili og svimandi vexti. Þess í stað leitar það til Spánar í hægari lífsstíl þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi og bankalánin lækka frá fyrstu afborgun.

Það er mikil lyftistöng að fá slíka innspýtingu í íslenska samfélagið hérna og dásamlegt að sjá þetta flotta unga fólk auðga mannlífið. Það er líka einstaklega gaman að geta verið þeim innan handar við að taka fyrstu skrefin í nýja landinu. En starf okkar felur einmitt, eðli málsins samkvæmt, í sér mikla ráðgjöf, ekki einungis varðandi fasteignakaup og rekstur fasteigna, heldur líka varðandi erfðamál, bílakaup, skólamál, heilbrigðismál, gerð skattskýrslna og þess háttar. Við deilum reynslu okkar af þessu öllu með okkar viðskiptavinum og höldum í höndina á þeim í þessum breytingum.“

Þakklát fyrir gott orðspor

Aðspurð hvað sé efst í huga Auðar þegar hún lítur til baka á síðustu 24 ár í starfi þá segir hún að það sé þakklæti. „Ég er þakklátust fyrir gott orðspor og ánægða viðskiptavini. Við erum óendanlega þakklát fyrir okkar góðu viðskiptavini og að hafa átt því láni að fagna að geta hjálpað eins mörgum Íslendingum að kaupa sér hús á Spáni og raun ber vitni,“ segir Auður en bætir við að það hafi líka heilmikið breyst á þessum 24 árum.

„Það hafa til að mynda orðið miklar breytingar til hins betra í byggingariðnaðinum. Sérstaklega hvað varðar hita- og hljóðeinangrun húsa og þannig er rafmagnskostnaður til dæmis um 60% lægri í nýjum eignum samanborið við eldri eignir. Um þessar mundir erum við í fyrsta skipti að selja hús sem eru með fjórföldu gleri og fá þannig samevrópska A+-vottun fyrir orkusparnað þannig að þessi munur er sífellt að aukast.“

Vel hægt að læra tungumálið

Auður talar um að ásamt góðum starfsmönnum hafi stórfjölskyldan verið viðloðandi rekstur fasteignasölunnar frá fyrsta degi. „Í dag eru tveir synir okkar starfandi á skrifstofunni í Villamartin; Birgir Hans sem er löggiltur fasteignasali á Spáni og útskrifaður í alþjóðasamskiptum frá Evrópuháskóla Valensíuborgar og Orri Thor sem er að hefja nám í lögfræði í Murciaborg og starfar hjá okkur í hlutastarfi. Auk þess starfar María Rún hjá okkur, hörkudugleg íslensk stúlka sem við vorum svo lánsöm að fá í okkar raðir.

Ég er lifandi sönnun þess að hægt er að læra spænskuna vel á fullorðinsaldri en ég var 26 ára og algerlega mállaus þegar við fjölskyldan fluttum til Spánar,“ segir Auður og hlær. „Ef einhver lætur sig dreyma um að flytja til Spánar en setur fyrir sig að kunna ekki tungumálið, þá segi ég bara: Láttu vaða, þetta er vel hægt. Við fjölskyldan, sem og starfsfólkið á skrifstofunni, erum öll þrítyngd, og spænskan og íslenskan eru notuð til jafns í okkar starfi. Unga fólkið fékk spænskuna með móðurmjólkinni en við fullorðna fólkið lærðum hana ekki fyrr en síðar á ævinni.“

Öryggi og faglegar ráðleggingar

Ný lög um starfsemi fasteignasala í Valensíuhéraði tóku gildi í lok síðasta árs og Auður segist fagna þeim mjög. „Þeim er ætlað að vernda hagsmuni viðskiptavinanna og það var löngu orðið tímabært að setja slíkan ramma um fasteignaviðskipti á Spáni. Íslendingar eru líka alltaf að verða meira og meira meðvitaðir um sinn rétt sem viðskiptavinir,“ segir Auður og útskýrir frekar hvað felst í þessum lögum.

„Fasteignasölu er einungis heimilt að starfa sé hún starfandi fyrirtæki á Spáni með spænska fyrirtækiskennitölu, með opna starfsstöð í Valensíuhéraði og með bankaábyrgð upp á níu milljónir íslenskra króna (60.000 evrur) og skaðabótatryggingu upp á 90 milljónir íslenskra króna (600.000 evrur). Þar að auki þurfa forráðamenn fasteignasölunnar að vera menntaðir fasteignasalar eða með sambærilegt háskólanám sem viðurkennt er af spænskum yfirvöldum.

Fyrir Íslendinga þýðir þetta meðal annars að ekki sé lengur löglegt að selja hús á Spáni í gegnum íslenskt fyrirtæki og leggjum við mikla áherslu á að fólk sem hyggur á húsakaup kynni sér vel að fasteignasalan sem þeir ætli sér að eiga viðskipti við sé með hin lögbundnu RAICV-réttindi. Ég lauk námi til löggilts fasteignasala á Íslandi og við hjá Perla Investments erum því eins tilbúin að sinna íslenskum viðskiptavinum okkar og hægt er auk þess sem Perla Investments er með fasteignaréttindi sem ná yfir alla starfsemi fyrirtækisins og starfsmannanna,“ segir Auður að lokum og hvetur alla til að kíkja á kynninguna hjá Perla Investments á Garðatorgi á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert