Fréttaskýring: Munu landsmenn hrósa „appi“?

Þessi kona er örugglega að komin með nýjasta appið.
Þessi kona er örugglega að komin með nýjasta appið. AFP

Orðið „app“ hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum. Reglulega berast fréttir af nýju appi sem eigendur snjallsíma og spjaldtölva eru hvattir til að nálgast. App, sem er stytting á enska orðinu application, hefur m.a. verið þýtt sem snjallsímaforrit. Nú hefur þýðingin stefja litið dagsins ljós, en er ekki í lagi að nota orðið app?

Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor hjá Árnastofnun, segist ekki sjá neina sérstaka meinbugi á því. App sé ágætt orð að því leyti að það falli að beygingarkerfinu, en það beygist eins og orðin happ eða klapp. Auk þess sé bæði auðvelt að bera orðið fram og skrifa það.

„Mér heyrist ekki vera samstaða um neitt orð, sem er alíslenskt, til að leysa þetta af hólmi,“ segir Ari Páll í samtali við mbl.is. Hann bendir hins vegar á að nýjasta þýðingin sé orðið stefja sem komi frá orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands.

Ekki gegnsætt

Það hve mönnum gengur illa að finna íslenskt orð yfir app bendir til þess að mönnum sé ekki vel ljóst hvað við sé átt þegar talað sé um app, þ.e. orðið er ekki gegnsætt, að sögn Ara Páls. Hvað varðar þýðinguna stefja þá megi segja að það sé ekki heldur nægilega lýsandi.

„App hefur þann ókost, eins og mörg tökuorð, að það segir ekki sjálft hvað það er,“ segir Ari Páll. Orðið fái merkingu sína af notkuninni sem sé algengt. „En mér finnst stefja ekkert segja mér hvað það er,“ bætir Ari Páll við.

„Í nýyrðadagbókinni segir [að orðið app sé] varasamt. Við erum ekki alveg tilbúin að mæla ákveðið með því,“ segir Ari Páll. Það gæti enn einhverjar tregðu í samfélaginu við að samþykkja orðið.

Ritmál og talmál skipta með sér verkum

App er tölvuforrit sem er hugsað fyrir snjallsíma á borð við iPhone og spjaldtölvur. Dæmi um slíkt forrit er 112 Iceland sem var nýverið kynnt. Það er snjallsímaforrit sem er ætlað að auka öryggi ferðafólks.

Orðið app er ætlað að útskýra að um einhverskonar smækkun sé að ræða, eða smáforrit eða forritsstubbur. Hugmyndin með orðinu stefja er væntanlega svipuð að sögn Ara Páls. Þar sé einnig um smækkun að ræða, þ.e. stef sem getur t.d. þýtt vísupartur.

Ari Páll segir mögulegt að lokaniðurstaðan verði sú að app verði notað í daglegu tali og - mögulega - stefja í bókmáli. Það sé ekki ósvipað því og segja megi um notkun orðanna bíll og bifreið. „Það virðist vera mjög algengt í íslenskunni að ritmálið og talmálið skipti með sér verkum,“ segir Ari Páll.

Það er aftur á móti ljóst að öll umræða um tungumálið er af hinu góða. „Það er ekki dauðvona meðan maður talar svona mikið um það,“ segir Ari Páll að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert