Netflix líklega aldrei til Íslands

Höfuðstöðvar Netflix.
Höfuðstöðvar Netflix. AFP

Allt að tuttugu þúsund íslensk heimili eru með aðgang að efnisveitum á borð við Netflix þrátt fyrir að þær hafi ekki formlega veitt aðgang að sínu efni á íslensku landsvæði. Sökum þessarar stóru markaðshlutdeildar sjá þær engan hag af því að laga þjónustu sína að íslenskum notendum og munu aldrei gera það.

Þetta kemur fram í skýrslu rýnihóps á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um greiningu á hindrunum fyrir streymiþjónustu. Niðurstaða hópsins er sú að íslensk stjórnvöld þurfi að beita sér fyrir því að fundnar verði leiðir að til að auka framboð á menningarefni með stafrænum hætti sem notendur geta nálgast á einfaldan og skjótan hátt með löglegum hætti.

„Ef ekkert verður að gert er óvíst um stöðu íslenskrar tungu, menningar og innlendrar framleiðslu tónlistar og kvikmynda í nánustu framtíð að mati rýnihópsins,“ segir í skýrslunni og að það sé samfélagslegur ávinningur að starfræktar séu öflugar stafrænar efnisveitur sem bjóði upp efni sem ætlað er íslenskum notendum.

Spotify breytti landslaginu

Í skýrslunni segir áberandi að aukið löglegt framboð tónlistar á netinu hafi dregið úr notkun ólögleiðra leiða til að komast yfir tónlist. „Því er ljóst að tónlistarveitur á borð við Spotify og jafnvel tonlist.is hafi gert það að verkum að fólk, sem greiddi ekki fyrir tónlist áður, gerir það núna. Að mati rýnihópsins er það mjög jákvæð þróun.

Aðeins 16,9% aðspurða segjast hlusta á tónlist sem hefur verið halað niður af vefsíðu þar sem höfundur/rétthafi hefur ekki fengið greitt fyrir. Um 18,8% segjast hlusta á tónlist í gegnum áskrift á streymiþjónustu sem greitt er fyrir. Þótt streymi komi ekki í stað þess að eiga lagið, hefur Spotify þjónustan í mörgum tilvikum leyst ólöglega skráardreifingu af hólmi.“

Annað mál með sjónvarpsefni

Spotify býður upp á íslenska tónlist og opnaði fyrir þjónustu við íslenska notendur á árinu 2012. Það sama er ekki uppi á teningnum með sjónvarpsþjónustu því að iTunes, Hulu og Netflix bjóða ekki formlega upp á þjónustu sína hér á landi. Hefðbundin landamæri milli markaðssvæða hafa hins vegar horfið og tiltölulega auðvelt er að færa rafrænt aðsetur sitt og nálgast þannig þjónustuna.

Þessar efnisveitur hafa sökum þess talsverða markaðshlutdeild og eins og áður segir eru allt að tuttugu þúsund heimili með aðgang að Netflix. „Ljóst er að löggjöf á þessu sviði er talsvert á eftir tækninni. Með tilkomu internetsins hafa fallið niður þær landfræðilegu takmarkanir sem áður giltu um dreifingu efnis og geta notendur hér á landi með tæknilegum aðferðum nálgast efni sem ætlað er til notkunar á öðrum landssvæðum,“ segir í skýrslunni.

Rýnihópurinn tekur ekki afstöðu til lögmætis þess að Íslendingar kaupi þjónustu af efnisveitum sem formlega bjóða ekki upp á hana hér á landi „en ljóst er þó að henni verði ekki jafnað við ólögmæta dreifingu efnis á netinu sökum þess að greiðsla kemur fyrir. Eftirspurn eftir þjónustunni er fyrir hendi hér á landi og því ætti að vera kappsmál fyrir rétthafa að stuðla að löglegu framboði þjónustunnar því hlutfall ólöglegs niðurhals á kvikmyndum og sjónvarpsefni er með því hæsta í heiminum á Íslandi“.

Það er hins vegar ekki kappsmál sökum þess hversu stóra markaðshlutdeild efnisveiturnar hafa nú þegar án þess að hafa nokkuð aðhafst. Því er ólíklegt að þær muni nokkurn tíma sjá sér hag í því að laga þjónustu sína að íslenskum notendum. Með núverandi fyrirkomulagi greiða þær til dæmis ekki skatta hér á landi og lúta ekki íslensku lagaumhverfi að neinu leyti. „Slíkar efnisveitur hafa t.a.m. ekki þurft að texta eða talsetja efnið sitt eins og innlendar sjónvarpsstöðvar þurfa að gera. Þá hafa þær ekki aðlagað sig að markaðnum s.s. með því að bjóða upp á efni sem framleitt hefur verið hér á landi.“

Netflix lítið notað meðal efnaminni

Þá vekur það athygli hjá rýnihópnum hverjir það eru sem kaupa þjónustu af Netflix, iTunes og Hulu. „Það var áberandi hversu lítið þessi þjónusta er nýtt á meðal efnaminni og yngri kynslóðarinnar,“ segir í skýrslunni en einnig kom það hópnum á óvart hversu hæg aukning hefur orðið á kaupum á þjónustunni, t.d. miðað við alla umræðuna sem orðið hefur um að möguleikinn sé fyrir hendi. „Þeir sem nýta sér þessa leið fara úr 10,4% í 15,8% síðan 2011.“

Að lokum segir í skýrslunni að ljóst sé að Amazon, Spotify og Netflix muni í auknum mæli afla sér notenda hér landi án þess að bjóða upp á starfsemi sína á Íslandi með formlegum hætti. Og á meðan markaðurinn ýti undir sölu án réttinda muni Netflix ekki sjá hag sinn í því að koma hingað til lands.

Hætta sé á því að stórlega muni draga úr hlutfalli innlendrar framleiðslu og erfiðara muni reynast að koma íslensku menningarefni á framfæri. Þannig þurfa innlendar efnisveitur að borga virðisaukaskatt af þjónustu sinni, talsetningu, textun og aðgengi að innlendu efni. „Eina leið til samkeppni við erlenda risa er breidd í íslensku efni og þá verða að vera til staðar sterkir íslenskir miðlar.“

Frétt mbl.is Furða sig á aðgerðaleysi lögreglu

Frétt mbl.is: Gott aðgengi gegn ólög­mætri notk­un

Amazon
Amazon AFP
Spotify.
Spotify. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert