Gott aðgengi gegn ólögmætri notkun

Sífellt fleiri streyma tónlist í gegnum netið.
Sífellt fleiri streyma tónlist í gegnum netið. AFP

Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur nýja skýrslu um steymiþjónustu gefa tilefni til að athuga sérstaklega hvernig koma megi meira af íslensku efni á streymisveitur, auka framboð á íslensku efni á vefnum. Greiðara aðgengi að löglegu stafrænu efni sporni nefnilega gegn ólögmætri notkun.

Í skýrslu rýnihóps á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um greiningu á hindrunum fyrir streymiþjónustu kemur fram að gott aðgengi að stafrænu menningarefni og hvers konar afþreyingu sé afar mikilvægt fyrir öflugt menningarlíf í íslensku samfélagi. Hins vegar komi smæð hins íslenska markaðar í veg fyrir að erlendar og innlendar efnisveitur bjóði upp á þjónustu sína hér á landi með formlegum hætti. Gera megi ráð fyrir að þær sjái sér einfaldlega ekki hag í því að leggja út í þann kostnað sem myndi fylgja aðlögun þjónustunnar fyrir íslenskan markað.

Þá segir að erlendar efnisveitur, sem hafa ekki veitt formlega aðgang að sínu efni á íslensku landssvæði, greiði enga skatta hér á landi og lúti ekki íslensku lagaumhverfi. Slíkar efnisveitur þurfa t.d. ekki að texta eða talsetja efni sitt eins og innlendar sjónvarpsstöðvar þurfa að gera. Af því leiði að erfitt er fyrir íslenska aðila að veita þeim samkeppni á jafnræðisgrundvelli.

Þeir sem hefðu hug á að koma upp lögmætri efnisveitu hér á landi þyrftu að kaupa sýningarrétt fyrir Ísland sérstaklega og yrði efnisvalmynd slíkrar þjónustu sértæk fyrir íslenskan markað og aðeins ætluð honum. Ætla megi að uppsetning þjónustunnar yrði mjög kostnaðarsöm miðað við smæð markaðarins hér á landi.

Í skýrslunni segir: „Með tilkomu löglegra efnisveita á netinu, sem bjóða upp á einfaldari og aðgengilegri leiðir til að njóta tónlistar, kvikmynda og sjónvarpsefnis er ólöglegt niðurhal orðið síðri kostur fyrir notendur en áður. Að mati rýnihópsins eru það nokkur vonbrigði hversu lítil þróun hefur orðið á framboði á löglegum kostum fyrir notendur á stafrænu menningarefni hér á landi, einkum þó myndefni.“

Meðal annars má streyma íslenskri tónlist í gegnum tonlist.is
Meðal annars má streyma íslenskri tónlist í gegnum tonlist.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert