Virðast hafa sloppið fyrir horn

AFP

Evrópsk stjórnvöld og fyrirtæki virðast hafa sloppið við frekari áföll vegna tölvuárásarinnar sem hófst á föstudaginn og felst í því að gögnum á tölvum er læst með sérstökum hugbúnaði og eigendurnir síðan krafðir um greiðslu lausnargjalds í rafeyrinum bitcoin. Þetta er haft eftir Jan Op Gen Oorth, talsmanni evrópsku lögreglunnar Europol, í frétt AFP.

„Fórnarlömbum virðist ekki hafa fjölgað enn sem komið er og staðan virðist stöðug í Evrópu sem er jákvætt,“ segir Op Gen Oorth. Svo virtist sem margir hafi notað helgina til þess að koma tölvuöryggismálum sínum í lag og uppfæra stýrikerfi og vírusvarnir. Talið er að hundruð þúsunda tölva um allan heim hafi orðið fyrir barðinu á árásinni.

Europol segir tölvuárásina fordæmalausa en meðal þeirra sem urðu fyrir henni voru bankar, sjúkrahús og opinberar stofnanir en hugbúnaðurinn sem notast var við nýtir sér veikleika í Windows-stýrkerfum sem vitað var um. Hugbúnaðurinn var upphaflega hannaður af Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna en honum var síðan stolið þaðan.

Bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft hafði gefið út uppfærslu fyrir árásina fyrir nýjasta stýrikerfi fyrirtækisins, Windows 10. Eldri útgáfur af Windows-stýrikerfinu buðu hins vegar hættunni heim þar sem Microsoft-þjónustar þær ekki lengur með uppfærslum. Þar á meðal Windows XP og Windows 8. Uppfærslur fyrrir þau hafa nú verið gefnar út.

Enn er þó óttast að ný bylgja smitaðra tölva gæti komið í dag þegar fólk mæti til vinnu ræsi tölvur sínar en talið er að hundruð þúsunda tölva hafi þegar smitast í um 150 löndum um allan heim „Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt,“ er haft eftir Rob Wainwright, yfirmanni Europol. Fram kemur að enn sé ekki vitað hver eða hverjir standi að árásinni.

Fréttaveitan Reuters greinir frá því að hlutabréf í tölvuöryggisfyrirtækjum hafi hækkað um helgina í kjölfar tölvuárásarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert