Það kann að vera stutt í að ríki heims upplifi „alvarleg stafræn skemmdarverk“ sem geta leitt til „ringulreiðar og óspekta“. Við þessu varaði Rob Bertholee, yfirmaður njósnamála í Hollandi, á fundi um netöryggi í Haag í dag.
Sagði Bertholee hættuna á skemmdarverkum á mikilvægum innviðum vera nokkuð sem „geti haldið manni vakandi á nóttunni“. „Stafræna ógnin er ekki ímyndun, hún er allt í kringum okkur,“ sagði hann. En netöryggissérfræðingar víða um heim reyna nú að vinna bug á netveirunni WannaCry, sem hefur frá því á föstudag valdið tjóni hjá fyrirtækjum og stofnunum í fjölda landa.
„Það er mitt mat að við kunnum að vera nær alvarlegri stafrænum skemmdarverkum en margir geta ímyndað sér,“ sagði Bertholee við þau hundruð netöryggisérfræðinga og opinberra embættismanna sem sóttu fundinn.
Rifjað hann því næst upp hvernig stærsta olíufyrirtæki Sádi-Arabíu hefði stuttlega orðið fyrir árás árið 2012 og þremur árum síðar hefðu úkraínsk raforkufyrirtæki verið fórnarlömb hakkara sem tóku allt rafmagn af í nokkra tíma.
Það hefði vissulega sína kosti hversu tengdir innviðir heims væru, en það gerði fyrirtæki og stofnanir líka viðkvæm fyrir slíkum árásum.
„Ímyndið ykkur hvað mundi gerast ef allt bankakerfið yrði fyrir árás sem stæði yfir í einn dag, tvo daga eða viku,“ sagði Bertholee.
„Eða ef samgöngukerfi okkar myndi hrynja, eða flugumferðarstjórar yrðu fyrir netárás á meðan þeir væru að stjórna flugumferð. Afleiðingarnar gætu verið hörmulegar.“
Yrði ein þessara stoða fyrir alvarlegri netárás sagði Bertholee það geta haft verulega alvarlegar afleiðingar sem leiddu til óeirða, óreiðu og óspekta.
Möguleikar hryðjuverkasamtaka íslamskra öfgahópa, á borð við Ríki íslams, til slíkra aðgerða kynnu enn vera takmarkaðir. Það væri þó engum blöðum um það að fletta að þau stefndu að því að geta staðið fyrir slíkri árás.
Sagði hann ríki heims verða að vera búin undir það að taka á móti slíkri árás.