Gerðu víða góða veiði í vetrarhörkum

Gunnar Árnason með flottan og hnausþykkan geldfisk sem hann tók …
Gunnar Árnason með flottan og hnausþykkan geldfisk sem hann tók neðan við brúna yfir Tungufljót. Þar lentu þeir félagar í veislu. Ljósmynd/Sigurður M. Guðmundsson

Víða á Suðurlandi gerðu veiðimenn góða veiði þrátt fyrir einstaklega erfið skilyrði. Frost, hífandi rok og klakaburður í bland við frosna tauma og frost í lykkjum stöðvaði ekki opnunarhollin. Einn veiðimaður orðaði þetta ágætlega. „Ég skil skáldið betur sem orti. Frýs í æðum blóð.“

Fiskur eftir fisk tók nánast undir brúnni og allt voru …
Fiskur eftir fisk tók nánast undir brúnni og allt voru þetta þykkir geldfiskar á bilinu þrjú til átta pund. Ljósmynd/Sigurður M. Guðmundsson

Í Tungufljóti lentu menn í skemmtilegri veiði. Nánast var óveiðandi á neðstu stöðum árinnar af ofangreindum sökum. Þeir hins vegar fundu mikið af fiski við brúna yfir fljótið. Þar settu menn í hvern fiskinn á fætur öðrum og þegar upp var staðið eftir daginn þá voru 27 fiskar sem hópurinn landaði. Allt var þetta geldfiskur í góðum holdum. Á bilinu þrjú til átta pund. Sigurður Marcus Guðmundsson gaf okkur töluna þegar veiðidegi var lokið. „Við erum hættir. Þetta er viðbjóður,“ svaraði hann þegar spurt var hvað þeir ætluðu að veiða lengi. Þetta var um kvöldmatarleitið og mönnum orðið kalt eftir volkið.

Eins sjá má á myndinni af Gunnari Árnasyni með fallegan og þykkan geldfisk þá var þessi fiskur líkari því sem gjarnan hefur sést í Húseyjarkvísl á þessum tíma.

Auke van der Ploeg og Hermann Ágúst Björnsson missa sig …
Auke van der Ploeg og Hermann Ágúst Björnsson missa sig í gleðinni yfir enn einum birtingnum í Geirlandsá. Ljósmynd/Árni Kristinn Skúlason

Geirlandsá var ekki líkleg í morgunsárið þegar þeir Árni Kristinn Skúlason og Jón Stefán Hannesson skoðuðu að klukkan 9. Áin rann varla og var ísilögð. Þeir fóru að Ármótum og byrjuðu þar að brjóta klaka af staðnum. Fóru þeir upp undir geirvörtur við þessa iðju að sögn Árna Kristins.

Já það var frost. Veiðihjólið lagt í sandinn og sandurinn …
Já það var frost. Veiðihjólið lagt í sandinn og sandurinn fraus við það. Ljósmynd/Árni Kristinn Skúlason

Þegar sólin fór að skína án þess að rjúfa þó frostmúrinn komst hreyfing á ána og engu líkara en að einhvers konar stífla hefði gefið sig og áin fór hressilega upp í vatni. „Við fórum að veiða eftir hádegi og fundum mikið af fiski í Ármótum, bæði efri og neðri og við enduðum með að landa 23 birtingum. Fengum þrjá yfir áttatíu sentímetra og marga á bilinu sjötíu til áttatíu. Stærsti mældist 89 sentímetrar og við vorum að fá þetta bæði á straumflugur og púpur,“ upplýsti Árni Kristinn í samtali við Sporðaköst.

Fyrsti fiskur ársins í Geirlandinu. Árni Kristinn tók hann. Samtals …
Fyrsti fiskur ársins í Geirlandinu. Árni Kristinn tók hann. Samtals landaði hópurinn 23 birtingum. Ljósmynd/Jón Stefán Hannesson

Kalt getur verið svo margs konar. Ískalt, skítkalt eða hrikalega kalt. Árni Kristinn sagðist vita að til væru einhverjar fleiri skilgreiningar en vitnaði að lokum í skáldið. „Frýs í æðum blóð. Skil skáldið betur núna.“

Bjarki Bóasson með 89 sentímetra birting úr Ármótum. Sá stærsti …
Bjarki Bóasson með 89 sentímetra birting úr Ármótum. Sá stærsti sem við vitum í dag. Ljósmynd/Árni Kristinn Skúlason

Þrátt fyrir hrollkaldan dag eiga þeir félagar eftir einn og hálfan dag og „við getum ekki beðið,“ endaði hann samtalið á.

Þorgeir Þorgeirsson með 82 sentímetra birting úr Gullkistu í Eldvatni. …
Þorgeir Þorgeirsson með 82 sentímetra birting úr Gullkistu í Eldvatni. Samtals komu tuttugu á land þar í dag. Ljósmynd/Alexander Stefánsson

Eldvatnið var líka bara fyrir okkar sterkustu menn. Samtals komu þar á land tuttugu fiskar við sömu krefjandi aðstæður og aðrir voru að glíma við á svæðinu í kringum Kirkjubæjarklaustur. Stærsti fiskurinn þar mældist 82 sentímetrar og hann fékk Þorgeir Þorgeirsson í veiðistaðnum Gullkista.

Klassísk veiðimáltíð eftir kaldan dag. Kjöt, kartafla og benni. Grænmetið …
Klassísk veiðimáltíð eftir kaldan dag. Kjöt, kartafla og benni. Grænmetið ekki talið nauðsynlegt. Einfalt, kjarngott og engar skreytingar. Bara kaloríur. Ljósmynd/Sigurður M. Guðmundsson

Við eigum eftir að fá skýrslu af fleiri veiðisvæðum og birtum frekari frásagnir af opnunum þegar þær berast. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert