„Við höfum alveg séð það svartara“

Þorgeir með áttatíu sentímetra hrygnu úr Eyjarofi í Eldvatni. Aðstæður …
Þorgeir með áttatíu sentímetra hrygnu úr Eyjarofi í Eldvatni. Aðstæður er krefjandi. Frýs í lykkjum og mikið rok. En það veiðist ekkert nema að menn séu við þetta. Ljósmynd/Alexander Stefánsson

Bið veiðimanna er á enda. Fyrstu fiskarnir í Eldvatni eru komnir á landi. Veiðitímabilið hófst formlega í morgun og víða er fólk að skoða hinar vetrarlegu og afleitu aðstæður sem blasa við. Það er frost um allt land og snjókomu spáð norðan heiða í dag. Bláar frosttölur einkenna veðurspá Veðurstofunnar út þessa viku. Þegar líður á vikuna má sjá tvær til þrjár gráður í plús yfir hádaginn en meira þarf til svo hægt sé að tala um vor.

En veiðidellan sigrast á flestum ef ekki öllum aðstæðum. Harðsvíraður og þaulreyndur vorveiðihópur er að opna Eldvatn í Meðallandi. Stíf norðaustan átt gerir mönnum lífið erfiðara og lofthiti við frostmark, þannig að frýs í lykkjum. Það breytir því þó ekki að þegar við heyrðum í veiðimönnum á ellefta tímanum í morgun var búið að landa þremur sjóbirtingum og missa nokkra. „Þar af tvo dreka í Eyjarofi,“ sagði Erlingur Hannesson, einn leigutaka.

Einar Oddgeirsson með einn af fyrstu birtingum veiðitímabilsins 2024. Eldvatnið …
Einar Oddgeirsson með einn af fyrstu birtingum veiðitímabilsins 2024. Eldvatnið hefur verið að gefa í morgun. Þessi veiddist í Hundavaði. Ljósmynd/Erlingur Hannesson

Einar Oddgeirsson fékk fisk í Hundavaði og var það einn af fyrstu fiskum morgunsins og þar með á nýju veiðitímabili 2024.

Sporðaköst náðu tali af Alexander Stefánssyni og Þorgeiri Þorgeirssyni þar sem þeir voru staddur í Eyjarofi og voru þeir félagar búnir að landa þremur fiskum. Þar af var ein bleikja. „Við erum búnir að missa tvo mjög góða fiska. Þeir minni eru æstari í fluguna og við erum búnir að landa tveimur slíkum birtingum.“ Alexander segist muna eftir aðstæðum sem hafi verið verri en þessar. Hann telur að það hafi verið vorið 2020. Þá var frost og líka snjór. Svo gerði hríðarbyl á þá og allir fóru heim nema Alexander. „Við höfum alveg séð það svartara. Þorgeir er búinn að setja í fisk. Þarf að rjúka,“ og þar með var hann farinn út úr bílnum. Áður en sambandið slitnaði réðst vindurinn á símann og blés kröftuglega. Þó mátti heyra Alexander kalla, „Þessi er stór...“  

Félagarnir Þorgeir og Alexander. Brosað í gegnum kulda og rok. …
Félagarnir Þorgeir og Alexander. Brosað í gegnum kulda og rok. Búnir að setja í fimm og landa þremur. Ljósmynd/Þorgeir Þorgeirsson

Tuttugu mínútur síðar kom mynd af Þorgeiri með áttatíu sentímetra hrygnu. Vorleg og mjóslegin en nú þegar við vitum sífellt meira um sjóbirtinginn þá er fyllsta ástæða til að trúa því að hún snúi aftur í haust eftir að hafa fitað sig á nýjan leik. Sporðurinn er tættur eftir átök vetrarins. Þeir félagar eru búnir að eiga góðan morgun. Setja í fimm fiska og landa þremur. Allir teknir á Black Ghost útfærslur og eins og Þorgeir sagði: „Öflugt tæki á þessum tíma.“

Farið hefur verið í nokkrar endurbætur og uppfærslur í veiðihúsinu við Eldvatn. Ljóst er að nýja gufubaðstunnan verður vinsælasta herbergið í húsinu í þessari veiðiferð. Ný grillhús er að sama skapi mikilvægt þegar blæs svona hressilega.

Nýjasta viðbótin í Eldvatni. Gufutunna sem verður án efa vinsælasta …
Nýjasta viðbótin í Eldvatni. Gufutunna sem verður án efa vinsælasta herbergið í þessum túr. Ljósmynd/Erlingur Hannesson

Við Leirá var IO veiðifjölskyldan mætt snemma í morgun. Stefán, Harpa og Matthías hafa opnað ána síðustu ár og gert allt frá þokkalegri veiði upp í frábæra. Það hefur komið fyrir að kuldi og snjór hafi sett strik í reikninginn en þau hafa ekki upplifað þessa stöðu áður. „Þetta hefur aldrei verið svona slæmt,“ sagði Harpa Hlín Þórðardóttir í samtali við Sporðaköst í morgun. Hún sat inni í bíl og horfði á þá feðga Matthías Stefánsson og Stefán Sigurðsson keppast við að brjóta klaka af helstu hyljum og reyna að búa til lænur sem mætti kasta á. Þeir hafa áður staðið svona æfingum og það gefið veiði. Sjáum hvað setur.

Aðstæðurnar við Leirá í morgun. Feðgarnir takast á við vetur …
Aðstæðurnar við Leirá í morgun. Feðgarnir takast á við vetur konung. Það skyldi enginn afskrifa þá Matthías og Stefán. Ljósmynd/Harpa Hlín

Vetur konungur er enn við völd og hefur engan hug á að segja af sér. Ekki í bráð. Vorið skynjar sterka stöðu vetrar og er enn ekki búið að bóka flug til Íslands.

Vífilsstaðavatn sem margir hafa sótt í byrjun apríl er ekki mjög spennandi kostur. Vatnið er nánast allt ísilagt og nokkuð í að það breytist.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert