Snæfellsjökull Svona hreinn og fagur getur Snæfellsjökull verið á sólbjörtum degi. Myndin er tekin af Búlandshöfða.
Snæfellsjökull Svona hreinn og fagur getur Snæfellsjökull verið á sólbjörtum degi. Myndin er tekin af Búlandshöfða. — Ljósmynd/Gísli Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðjón Guðmundsson gugu@mbl.is FJÓRÐA bókin í röðinni Seiður lands og sagna er komin úr á vegum bókaútgáfunnar Skruddu.

Eftir Guðjón Guðmundsson

gugu@mbl.is

FJÓRÐA bókin í röðinni Seiður lands og sagna er komin úr á vegum bókaútgáfunnar Skruddu. Höfundur bókanna er Gísli Sigurðsson sem hefur lesið og valið úr heimildum, skrifað bókartextann, tekið sjálfur megnið af þeim 400 ljósmyndum sem í bókinni eru og teiknað upp útlit hennar. Þar að auki eru í bókinni nokkur málverk, bæði eftir bókarhöfundinn og fleiri málara. Í fyrsta sinn lætur hann fylgja með fimm frumsamin ljóð um efni sem fyrir er tekið í bókinni en auk þess eru í bókinni ljóð eftir borgfirzk og snæfellsk skáld og ljóð eftir nokkur önnur skáld um menn og atburði þar vestra.

"Ætlun mín með þessum bókum er sú að menn njóti betur landsins og fegurðar þess með því að þekkja betur til sögunnar. Ég hef reynt að vera á ferðinni á öllum árstíðum, um hásumur, á haustin, í skammdeginu og á útmánuðum, og tefli því öllu saman í ljósmyndum í bókinni," segir Gísli. Hann byrjaði á fyrstu bókinni strax eftir að hann hætti á Morgunblaðinu í ársbyrjun 2001.

Síðasta bókin

"Í þrjú ár gerði ég eina bók á ári. Sú fyrsta fjallaði um svæðið austan úr Lóni og vestur undir Eyjafjöll, síðan komu Njáluslóðir, Hreppar og Tungur og í þeirri þriðju fjallaði ég um Reykjanesið og Borgarfjörð að Húsafelli. Í þessari fjórðu og síðustu bók byrja ég í Hvítársíðu og held vestur eftir Mýrasýslu, fjalla um sunnan- og norðanvert Snæfellsnesið að Stykkishólmi," segir Gísli.

Hann kveðst ætla að láta þetta gott heita þótt ekki hafi hann komist yfir helming landsins. Gísli fór í 22 leiðangra um Snæfellsnesið til þess að taka myndir í bókina og jafnframt til þess að komast á staðina og sjá þá með eigin augum. Stundum kom hann tómhentur til baka þegar birtuskilyrði voru ekki með þeim hætti að hægt væri að taka myndir.

"Þetta svæði er gríðarlega myndrænt og ólíkt að fara um Hvítársíðu og vestur Mýrarnar, sérstaklega við ströndina. Hnappadalurinn er lítið kunnugt svæði og er mér mjög eftirminnilegur. Flestir þekkja fegurðina vestur á Snæfellsnesi, sérstaklega vestan við Jökul. Það verður heldur hvergi þverfótað fyrir sögum og sögnum af merkilegu fólki á þessum slóðum. Mín aðferð hefur verið sú að myndirnar segja frá nútíðinni en ég vel úr heimildum allt það sem mér þykir kræsilegt. Texti bókarinnar fjallar að verulegu leyti um fólk sem hefur átt heima á þessum slóðum allt frá landnámi til þessa dags. Þarna hitti ég fyrir landsnámsmanninn Skallagrím og son hans Egil og þá Borgarmenn á Mýrum, Snorra goða á Helgafelli og frægar sögupersónur úr Eyrbyggju. Öldunum er fylgt eftir og rakið það sem helst þykir frásagnarvert af mannlífi. Þarna rakst ég á heilt safn af ótrúlegu fólki og merkilegastur af öllum fannst mér vera Guðmundur Bergþórsson, sem var kallaður Stapakrypplingurinn. Hann bjó á Arnarstapa í skjóli amtmannsins. Hann hafði höfuð venjulegs manns en búkurinn var litlu stærri en höfuðið, eða eins og á nýfæddu barni. Þetta var stórgáfaður maður sem var vinsælt skáld á sinni tíð," segir Gísli.

Úr nútíðinni hitti Gísli einnig merkilegt fólk eins og Magnús Sigurðsson á Gilsbakka, sem Gísli segir að sé eins og alfræðibók fyrir Borgarfjörðinn, svo minnugur og fróður sem hann er. Einnig nefnir Gísli hjónin á Arnbjargarlæk, Guðrúnu og Davíð, og íbúðarhús þeirra sem er það fallegasta sem ennþá hefur verið byggt í sveit á Íslandi, að mati Gísla.

Málverk og ljóð eftir Gísla

Gísli fjallar líka að hluta um atvinnusöguna, það er útróðrarstaðina í Dritvík, sem voru um tíma stærstu útróðrarstaðirnir á Íslandi á vorvertíð. Þangað streymdu að menn víðs vegar að af á landinu. Þarna bjuggu þeir við lífsháska upp á sérhvern dag.

Í nýju bókinni er að finna málverk eftir Gísla, eins og í fyrri bókum. "Mig vantaði ljósmynd af Agli Skallagrímssyni svo ég varð að mála hann."

Þá hefur Gísli ort fimm ljóð sem einnig eru í bókinni. "Í bókinni eru ljóð eftir alla þá sem þekktir eru fyrir yrkingar á þessum slóðum og ég bæti við fimm ljóðum eftir sjálfan mig."

Gísli tekur líka ýmislegt forvitnilegt út úr megintextanum og setur í ramma með lituðum grunni. Þetta er þekkt úr blaðamennsku og auðveldar lesandanum að finna ýmsa forvitnilega mola sem í verkinu eru. Annað sem vekur athygli eru lítil póstkort sem Gísli sendir liðnum merkismönnum. Dæmi um slíkt er póstkort sem hann skrifar Sigurði Breiðfjörð og skilur eftir í bæjarrústunum á Grímsstöðum. Einnig skrifar hann bréf til Ara Fróða. "Þetta er mín aðferð til þess að fá líf í frásögnina og gera hana persónulega," segir Gísli.

Bókin er 360 síður í allstóru myndabókarbroti eins og hinar þrjár sem áður voru komnar út.