Nína Lárusdóttir fæddist á Eyrarbakka 6. júní 1932. Hún lést 4. júní 2009 á Landspítalanum í Fossvogi. Foreldrar hennar voru Sigríður Haraldsdóttir f. 16.08.1913 á Eyrarbakka d. 23.07.1987 og Lárus Böðvarsson f. 15.05.1905 á Seyðisfirði d. 11.09.1972. Systir Nínu er Elísabet f. 1934 gift Jóni Friðgeiri Magnússyni. Bróðir, samfeðra, Valur Fannar Marteinsson f. 1927, d. 2000, eftirlifandi kona hans er Hanna Aðalsteinsdóttir. Nína giftist 19.04.1951 Hans Benjamínssyni, vélsmið f. 23.08.1926 d. 01.01.1982. Foreldrar hans voru Benjamín Hansson f. 1893 d. 1961 og Bríet Ásmundsdóttir f. 1903 d.1976. Sonur Nínu og Hans er Benjamín f. 10.12.1950 kvæntur Eygló Karlsdóttur f. 05.10.1951. Börn þeirra eru a) Harpa f. 1973 gift Sturlu Fanndal Birkissyni, börn Birkir f. 1999, Eygló f. 2001 og Benjamín f. 2006 b) Hans f. 1982 í sambúð með Sólrúnu Hörpu Þrastardóttur. Nína var alin upp á Seyðisfirði af föðurfólki sínu en 16 ára gömul fluttist hún til Reykjavíkur og bjó þar síðan. Hún starfaði við verslunarstörf, síðast hjá Epal eða fram til 72 ára aldurs. Útför Nínu fer fram frá Fossvogskirkju í dag 12. júní og hefst athöfnin kl. 13.

Það koma þeir tímar að gott er að sækja heim eldri frænku sem er fús til að rifja upp gamla tíð og sögu látinna ættingja sem tíminn hefur varpað yfir hulu þagnar og gleymsku. Þannig var því varið um Nínu Lárusdóttur, frænku mína frá Seyðisfirði, er ég heimsótti hana undanfarin ár og drakk með henni kaffi við borðstofuborðið í notalegri stofu hennar. Nú er hún búin að kveðja og farin á eftir þeim sem gengnir eru.
Nína ólst upp hjá föðursystur sinni, Ásdísi Böðvarsdóttur, og Stefáni föðurbróður í húsinu sem hann byggði handa sínu fólki. Seyðisfjörður var höfuðstaður Austurlands og þar var stundum gott um atvinnu. Þangað leitaði afi Nínu, Böðvar Stefánsson frá Melstað í Vestur-Húnavatnssýslu, og settist þar að ásamt konu sinni, Jónínu Friðrikku Stefánsdóttur frá Ketilstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Þau eignuðust stóran hóp barna, en hann vann sem skósmiður og ef svo bar undir daglaunamaður, en hafði áður lært söðlasmíði. Faðir Nínu, Lárus, hafði ungur flust til Reykjavíkur, hann stundaði nám og störf í Laugavegsapóteki og lauk exam. pharm. 1923 og var síðan við lyfjafræðinám í Braunschweig í Þýskalandi. Þetta var frábær dugnaður á þeim tíma, en hann hlaut til þess styrk hjá lyfsalanum í Laugavegsapóteki, Stefáni Thorarensen. Þegar hann kom heim varð hann lyfsali á Eyrarbakka, en apótekið brann fáeinum árum síðar. Vegna hjúskaparslita foreldranna og berklaveiki móðurinnar var Nína send í fóstur til föðurfólksins á Seyðisfirði, en yngri systur hennar, Elísabetu, tóku barnlaus hjón á Eyrarbakka að sér. Í húsinu á Seyðisfirði ólst líka upp móðir mín, Þórunn Eva, hjá Guðrúnu ömmu sem var slyng saumakona. Og þriðja frændsystkinið dvaldi þar einnig mikið, Stefán Már, systursonur ömmu minnar, en hann missti móður sína á barnsaldri. Og amman, Jónína Friðrikka, bjó einnig hjá þeim og skipaði sinn sess. Á bernskuárum Nínu var heimsstyrjöldin í algleymingi. Hús Stefáns frænda var spölkorn fyrir ofan höfnina og stöðugur straumur flutninga- og herskipa þar um. Því fylgdi aukin atvinna og gaf vissa sýn út í heim, enda verulega frábrugðið því sem menn áttu að venjast í daglegu lífi á þessum kyrrláta stað þar sem ekki sá út fyrir langan og bugðóttan fjörðinn. Seyðisfjörður var mikill síldarvinnslustaður, sannkallað Klondike norðursins, en þegar ég kom þangað, laust eftir 1970, var síldin horfin og eftir stóðu þögular minjar um þá miklu starfsemi og mannlíf sem þar fór fram á árum áður. Þetta var alþýðufólk sem vildi efla sinn hag eins og kostur var á þrátt fyrir ýmiskonar raunir og andstreymi. Guðrún amma flutti með dóttur sína til Reykjavíkur þar sem hún gekk í Verslunarskólann. Amma hafði uppi innrammaða mynd á vegg af Seyðisfirði, það var vottur um ræktarsemi hennar við sinn upprunastað. Stefán Már menntaðist einnig og fór í háskóla í Þýskalandi, en hann varð síðar um langt árabil þýskukennari í Verslunarskóla Íslands. Einnig Nína fór ung til Reykjavíkur, þessa Mekka tækifæranna, og stofnaði þar heimili með manni sínum, Hans, syni Bríetar og Benjamíns vélsmiðs frá Seyðisfirði; listasmiðs sem allt lék í höndunum á sem úr járni var. Nína og Hans voru samhent í lífinu og góð heim að sækja. Ég man eftir notalegu heimili þeirra á Kvisthaganum þar sem þau bjuggu lengi með Dísu frænku og syni sínum Benna. Eftir fráfall Hans vann Nína lengi í versluninni Epal og naut svo mikils álits að eigandinn vildi ekki sleppa henni þótt hún væri löngu komin á aldur og orðin fótfúin. Hún var í félagi Seyðfirðinga í Reykjavík og starfaði þar. Og skammt undan á festingu hinna seyðfirsku ættmenna voru Lísa frænka og Jón Magnússon maður hennar, hlý og alúðleg. Hún lærði félagsráðgjöf á sínum fullorðinsárum.
Þau Nína og Hans voru fyrsta fólkið sem ég vissi til að færi um öræfin þver og endilöng á trukki sínum og héldu síðan slides-myndasýningar af ferðum sínum fyrir ættingjana þegar heim kom. Ég var sem barn full aðdáunar og furðu yfir þessum ævintýralegu ferðalögum, enda þau ekki orðin algeng þá.
Nína var lagleg kona, reffileg og viðræðugóð. Þær systurnar, Lísa og hún, eru mér minnisstæðar þegar þær léku við hvern sinn fingur í fjölskylduboðum, töluðu mikið og hlógu dátt. Frændinn, Stefán Már, hæglátari og fámálli með sinni góðu konu, Marianne, sem hann hafði kynnst í Þýskalandi á námsárum sínum. Hann kenndi mér síðar þýsku við Verslunarskólann og var eini kennarinn sem átti til að syngja námsefnið fyrir nemendur sína, ljóð eftir Goethe, og spilaði af grammófóni lög við kvæði Bertolt Brechts. Það var í þessu fólki einhver seigla sem var bæði blíð og hörð.
Þessi fjölskylda var að vissu leyti dæmigerð fyrir alþýðufólk í þessu landi á fyrri hluta aldarinnar sem reyndi að opna sér leiðir út úr þrengslum efnaleysis og fábreytni þótt stundum yrði minna úr draumum manna en vonir stóðu til.
Ég vil þakka Nínu frænku kærlega fyrir samfylgdina og sendi Benna og fjölskyldu hans og öðrum aðstandendum samúðarkveðju.

Berglind Gunnarsdóttir.