Lilja Kjartansdóttir fæddist 20. mars 1991. Hún lést á barnaspítala Hringsins 19. október síðastliðinn. Foreldrar Lilju eru Kjartan Mar Eiríksson og Svava Magnúsdóttir, fósturfaðir Lilju er Halldór Olgeirsson. Bræður hennar eru Magnús og Ívar. Lilja stundaði nám í Safamýrarskóla og síðan í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Útför Lilju fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 28. október, kl. 13.

Ljós og friður
í þínu hjarta,
himnum á
hjá ljósinu bjarta
- fæðist þú á ný.

Fellur tár
á brostið hjarta,
lauga sár
söltuð tár
og minningin um þig,
lifir.
(B.G.)


Blessuð sé minning elsku Lilju minnar.

Dagar Lilju voru ekki alltaf auðveldir. Hún hefur barist hetjulega í 18 ár en
sem kornabarn greindist hún flogaveik sem hafði þær afleiðingar að hún bjó við fjölfötlun allt sitt líf.  Sárt er að segja en elsku Lilja fékk A(H1N1) og var
það henni ofviða.

Ekki verður komist hjá því að nefna Svövu móður Lilju og alla þá er komu að daglegri umönnun hennar, yndislegar manneskjur, englar á jörð sem gáfu sig alla í að gera daginn fyrir Lilju sem allra bestan.

Lilja hefur alltaf átt sérstakan stað í hjarta mínu og þó hún gæti ekki tjáð sig þá áttum við samt okkar samskipti á okkar sérstaka hátt.

Elsku Svava mín, Halli, Kjartan (faðið Lilju) Ívar, Maggi minn og fjölskylda
og ástvinir allir.  Við biðjum Drottinn að umvefja ykkur öll og gefa ykkur
styrk. Í Jesú nafni, Amen.

Brynja frænka og Gummi frændi.

Yndisleg stúlka er farin frá okkur. Líf hennar var umvafið ástúð og umhyggju.

Ég kynntist Lilju þegar hún var 3 ára. Ég kom inn á heimili hennar til að hjálpa til við hjúkrun og umönnun hennar. Hún var svo falleg og æðrulaus, brosið hennar var svo blítt.

Lilja dvaldi hjá okkur í Rjóðrinu reglulega frá því að Rjóðrið var opnað fyrir 5 árum. Það var á afmælisdaginn hennar 20. mars 2004 .

Hennar er sárt saknað en við vitum að nú er hún laus við alla sína fjötra.

Mig langar að kveðja Lilju með þessum fallegu orðum úr ljóði Bubba.

Farðu í friði vinur minn kær

Faðirinn mun þig geyma

Um aldur og ævi þú verður mér nær

Aldrei ég skal þér gleyma

Svo vöknum við með sól að morgni

Svo vöknum við með sól að morgni.

Englar Guðs munu vaka yfir Lilju.

Ég votta Svövu og allri fjölskyldunni samúð mina.

Guðrún Ragnars.