Árni Óskarsson, frá Meiðavöllum í Kelduhverfi, fæddist þar 16. maí 1946. Hann lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 2. júní 2009. Árni ólst upp á Meiðavöllum og bjó þar alla sína ævi. Hann var sonur hjónanna Óskars Ingvarssonar frá Undirvegg, f. í Grásíðu 5. febrúar 1918, og Guðrúnar Árnadóttur frá Meiðavöllum, f. í Arnarnesi 24. júlí 1922. Árni var einbirni. Foreldrar Árna fluttu á Meiðavelli árið 1928. Árni starfaði við bú foreldra sinna, en eftir að faðir hans lést tók Árni við og bjó þar ásamt móður sinni. Á Meiðavöllum var um margra ára skeið aðallega stundaður kúa- og sauðfjárbúskapur, en síðustu árin hefur nær eingöngu verið búið með sauðfé. Útför Árna fer fram frá Garðskirkju í dag, 12. júní, og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður í Skinnastaðakirkjugarði.

Elsku Árni frændi.

Ég vil minnast með nokkrum orðum þessa síðasta dags sem ég átti með þér.

Jarðarförin þín var sú fallegasta. Yndislegt veður, fallegar skreytingar, allt fólkið þitt, Álftagerðisbræður með sinn undurfagra söng og dásamlegt landslag séð frá hlaðinu á Meiðavöllum, þar sem þú undir þér best, á þínum heimaslóðum. Það tók undir í öllu Kelduhverfinu þegar þeir Álftagerðisbræður sungu Fram í heiðanna ró, og tárin láku niður kinnar mér þegar ég hlustaði á þennan fallega söng og horfði á kistuna þína, kvaddi þig í hinsta sinn. Ég hugsaði með mér; þarf fólk virkilega að deyja til að eiga svona yndislegan dag!

Það verður skrítið að koma í Meiðavelli og sjá þig ekki, stússast úti á túni eða hendast í fjárhúsin, sitja í eldhúsinu með kaffi og gefa þér eina sígó, ræða um heima og geima og spá í veðrið. Við gerum það þegar við hittumst aftur frændi. Ég veit að hann pabbi þinn hefur tekið vel á móti þér, og ég veit að nú líður þér vel, laus við allar þjáningar, hress eins og þú áttir að þér að vera.

Elsku pabbi minn, Gunni ástin mín, Óskar bróðir, Kibba systir og Jobbi mágur, Ágústa og Jón Þór; takk fyrir að gera daginn hans Árna eins dásamlegan og hann varð.

Mig dreymir heim um dimmar kaldar nætur.

Mig dreymir heim til þín, ó, móðir kær,

er hjarta þreytt í húmi dapurt grætur

og hníga tár sem þú ein skilið fær.

Og þegar blessuð sólin gegnum glugga

með geislum sínum strýkur vanga minn,

mér finnst það vera hönd þín mig að hugga

og hjartað öðlast ró við barminn þinn.

Er sunnan gestir sumarlandsins berast

á söngvavængjum norður bjartan geim,

og vinir fagna, vorsins undur gerast

þá verður yndislegt að koma heim.

(Freymóður Jóhannesson.)

Elsku Gunna okkar, við vottum þér okkar dýpstu samúð við fráfall elskulegs sonar þíns sem var þér allt. Megi góður Guð standa þér við hlið og styrkja þig í þinni miklu sorg.

Arney og Gunnar Karl, Birgir Ari, Óskar Þór og Einar Kristinn.