Sturlaugur Ólafsson fæddist í Keflavík 9. september 1948. Hann lést á heimili sínu 22. október. Faðir hans er Ólafur Björnsson f. 22. apríl 1924 skipstjóri og útgerðarmaður og móðir L. Margrét Z. Einarsdóttir f. 24. janúar 1925, d. 14. október 1966. Systkyni Sturlaugs eru; Þórir f. 27. janúar 1944, Borgar f. 14. Maí 1945, Elín f. 5 desember 1946, Sigrún f. 4. september 1950 og Björn f. 29. nóvember 1957. Sturlaugur kvæntist Ólöfu Björnsdóttur þann 26. desember 1967 en þau skildu 2008. Þau eignuðust tvær dætur, Unni Sturlaugsdóttur f. 23. janúar 1967, hún á tvö börn Davíð Eld Baldursson f. 11. nóvember 1983 sem ólst að miklum hluta upp hjá ömmu sinni og afa og Urði Unnardóttir f. 20. júní 2003. Margréti Sturlaugsdóttur gifta Fali Jóhanni Harðarsyni, þau eiga þrjár dætur; Lovísu f. 22. júli 1994, Elfu f. 21. janúar 1998 og Jönu f. 29. nóvember 2005. Sturlaugur varð húsasmíðameistari þann 1. júlí 1972. Árið 1977 hóf Sturlaugur störf sem framhaldsskólakennari við nýstofnaðan Fjölbrautaskóla Suðurnesja og kenndi við skólann í 30 ár. Útför Sturlaugs fer fram frá Keflavíkurkirkju 29. október og hefst athöfnin klukkan 14:00.

Mig langar með fáeinum orðum að minnast hans Stulla frænda míns.
Það fyrsta sem kemur upp í huga minn eru Skorradalsferðirnar forðum daga þar sem oftar en ekki var mikið fjör. Áramótaveislurnar sem fjölskyldur okkar áttu voru ekki síðri. Síðar, á unglingsárunum, var ég ráðinn sem aðstoðarmaður á úðunarbílnum. Þau tvö sumur voru hreint frábær skemmtun og þaðan á ég ótal margar ógleymanlegar minningar. Sérstaklega þegar við létum til skarar skríða gegn utanbæjarmönnum sem þóttust vera skrúðgarðameistarar og ætluðu að hasla sér völl á okkar úðunarsvæði. Við komum að þeim þar sem þeir reyndu að ljúga sig inn á einn viðskiptavina okkar í Garðinum. Við stoppuðum og bentum viðskiptavininum á að þessir menn væru að villa á sér heimildir og væru trúlega á vafasömum lyfjum. Á eftir fylgdu orðaskipti sem ekki verða endurtekin. Þegar við ókum á brott stóð samkeppnisaðilinn eftir á veröndinni og gaf okkur illt augnaráð. Hann taldi sig hafa unnið slaginn. Stulli var hins vegar ekki búinn að gefast upp heldur læddi upp löngutöng þannig að enginn sá nema hinni bíræfni samkeppnisaðili. Hann brást bálillur við þessu og hljóp á eftir okkur sem vitlaus væri. Viðskiptavinurinn hins vegar gapti og skyldi ekki hvað manninum gekk til. Stulli leit til hans og yppti öxlum eins og hann skyldi ekkert í þessu sjálfur. Kallaði svo út um gluggann þar sem við keyrðum í burtu: ,,Sagði ykkur að hann væri á lyfjum þessi. Svo hlógum við alla leiðina til heim til Keflavíkur.
Mig langar að þakka þér fyrir allar góðu stundirnar elsku frændi. Mér þykir óendanlega leitt að geta ekki fylgt þér til þinnar hinstu hvíldar. Hvíl í friði frændi.
Kæra fjölskylda ég færi ykkur öllum mínar dýpstu samúðarkveðjur.



Svanur Vilhjálmsson.

Kæri frændi,

Mig langar að kveðja þig, uppáhalds frænda minn, með nokkrum orðum. Því miður verður ekki sagt að það hafi komið flatt upp á mig að heyra af andláti þínu. Þú hafðir fyrir löngu gefist upp í baráttunni við Bakkus - þann djöful sem dregur menn aðeins eina leið. Kverkatakið sem hann hafði á þér var svo sterkt að enginn sem reyndi fékk það losað. Það var ekki auðvelt fyrir neinn af þeim sem elskuðu þig að láta í minni pokann gegn honum. Það veit sá sem allt veit, að margir reyndu - tóku slaginn - en það var sama hvaða taktík var beitt - ekkert gekk.

Þrátt fyrir þessa bitru reynslu mun ég minnast þín sem skemmtilegasta manns sem ég hef kynnst. Það er svo margt sem leitar á hugann þegar maður hugsar til baka. Ferðirnar í Skorradalinn, þar sem "sprettararnir" voru geymdir; sögustundirnar þegar þið Óla komuð í heimsókn til mömmu og pabba; sumarið sem við byggðum húsið fyrir Bjössa frænda; snurvoðartúrinn á Baldri; golfferðirnar okkar með Skotlandsförunum; og ótal hláturkrampar vegna uppátækja þinna og tilsvara.

Samband okkar var náið alla tíð og ég lærði margt af þér. Fyrir það allt er ég þér ævinlega þakklátur. Ég vildi að ég hefði getað gert meira fyrir þig í baráttunni við Bakkus, en alkóhólisminn er torræð geðveiki.

Nú hefur þú öðlast frið í sálinni, og ert eflaust búinn að hitta fyrir þína kæru vini sem þú saknaðir svo sárt. Ég veit að þér líður betur núna en það er sárt að horfa á eftir þér.

Þinn frændi

Garðar K. Vilhjálmsson.

Mig langar að minnast hans Stulla bróður míns með örfáum orðum.

Ein af mínum fyrstu minningum um hann Stulla var þegar hann stóð fyrir framan spegil með vatnsgreitt hárið og makaði í það brilliantíni, hann var enginn smá töffari  þó ekki væri hann stór. Mér þótti hann meira segja flottari en Little Joe í Bonanza.  Stulli var yfirleitt svo hress og kátur, og það sem líklega má kalla masgefinn og aldrei varð honum svarafátt.  Honum leiddist ekki að segja sögur og það var gaman að hlusta á hann segja þær. Hann fór til sjós um tíma og í sögulegu samhengi hefur líklega enginn verið lengur til sjós en Stulli, svo magnaðar voru sögur hans af sjónum.  En Stulli lærði til smiðs og var listasmiður og naut ég þess að fá að  kynnast því af eigin raun.  Síðar gerðist hann smíðakennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og naut sín þar í starfi í mörg ár.

Nú þegar hann elsku bróðir minn er farinn leita á mann ótal minningar og ekki síður spurningar, en  spurningin er aldrei sú hvort  við deyjum, heldur hvernig við lifum.

Því fylgir bæði sorg og söknuður að missa hann Stulla, en fyrir okkur öll sem nú söknum hans er  er ég viss um að honum er fagnað af mörgum í eftirlífinu.

Sá sem deyr, en lifir í hjörtum þeirra sem eftir lifa, er í raun ekki dáinn.

Guð geymi þig.

Björn G. Ólafsson.

Við kveðjum í dag góðan félaga okkar og vin, Sturlaug Ólafsson, eða Stulla eins og hann var ávallt kallaður. Stulli var einstakur og skemmtilegur maður sem lagði sig ítrekað fram til að gera vel við náungann og leggja sitt að mörkum til samfélagsins. Þess vegna var hann bæði vel liðinn og vinamargur.

Eftir alvarlegt slys á Reykjanesbraut í upphafi þessarar aldar tóku nokkrir aðilar frá Suðurnesjum sig saman og kölluðu saman baráttuhóp til að berjast fyrir öruggri Reykjanesbraut. Tollur brautarinnar var orðinn alltof hár. Og barátta Suðurnesjamanna til langs tíma var nú tekinn föstum tökum og hópurinn stækkaði hratt og örugglega. Þúsund manna borgarafundur í Stapa varð staðreynd og Suðurnesjamenn stóðu nú saman allir sem einn.  Sjaldan hefur eitt verkefni haft svo marga virka baráttumenn í langri sögur væntinga, allt frá ráðherrum, þingmönnum til einstaklinga sem með virkri samvinnu og þrautsegju létu sér málið varða. Og hér fór Stulli félagi okkar fremstur í flokki og lét til sín heyra. Mörgum sinnum á dag hringdi hann í mig og lagði línurnar og svo mætti hann á skrifstofu mína í beinu framhaldi til að fylgja símtölunum eftir, oft með kreptan hnefann. Stundum kom hann einn, stundum með Berki, Palla, Bjarna eða Gauja. Allir fundirnir okkar, Reykjavíkurferðirnar og uppákomurnar urðu að skemmtilegu ævintýri og þegar ég horfi á samsettu myndina á skrifstofunni sem sýnir sögu hópsins rifjast upp skemmtilegar minningar. Þarna er hann með okkur ákveðinn, rökfastur og um leið gamansamur mættur á fund þingmanna og ráðherra með flottu húfuna sína og góða skapið. Hann vissi alltaf nákvæmlega hvað þurfti að segja og gera. Og árangurinn hefur sem betur fer ekki látið á sér standa og enn í dag fögnum við hverju árinu af fætur öðru án banaslysa á Reykjanesbraut. Það er okkar sem eftir lifum að fylgja þessu verki eftir því sú barátta tekur aldrei enda.

Það hefði vissulega verið gaman að taka með þér einn slag í viðbót Stulli minn enn einn slaginn til góðs eins og þú hefðir orðað það.

En nú er baráttumaðurinn fallinn hans eigin barátta við Bakkus varð honum um megn. Og þegar hann fellir slíkan baráttumann þá skilur maður betur þvílíkan ofjarl var þar við að etja. Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut kveður með stolti og söknuði góðan liðsmann sem hafði alla tíð hag samborgara sína að leiðarljósi. Við félagarnir vottum afkomendum og ástvinum Sturlaugs Ólafssonar okkar dýpstu samúð og Guðs blessunar.

Hvíl í friði kæri vinur.

Steinþór Jónsson.