Jón Sigurðsson fæddist 31. ágúst 1914. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 17. febrúar 2011. Foreldrar hans voru Guðrún Ólafía Sigurðardóttir, fædd í Höskuldarkoti í Njarðvík 4. sept. 1884, d. 24. des. 1934, og Ari Kristján Eyjólfsson, fæddur í Reykjavík 17. febr. 1892, d. 27. sept. 1953. Jón ólst upp á Grettisgötunni hjá móður sinni og foreldrum hennar, Petrúnellu Júlíönnu Sigurðardóttur og Sigurði Hallssyni. Eiginkona Jóns frá 31. ágúst 1940 var Árný Sigurðardóttir, f. 16. jan 1919 í Vestmannaeyjum, d. 8. nóv. 1986 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Sigurður Pétur Oddson, skipstjóri og útvegsbóndí í Skuld í Vestmannaeyjum, f. 1880, d. 1945, og Ingunn Jónasdóttir, f.1883, d. 1960. Eftir að hafa búið þröngt í einu herbergi og litlu eldhúsi í ein 15 ár fluttu þau Jón og Árný í eigið húsnæði, Grundargerði 35, árið 1954. Þar bjó hann síðan nánast til æviloka. Dætur Jóns og Árnýjar eru 1) Guðrún Ólafía (Lóa), f. 23. sept. 1939 í Reykjavík. Maður hennar er Gunnar Tómasson hagfræðingur, f. 30. júní 1940 í Reykjavík. Þau eru búsett í Bandaríkjunum. Börn þeirra eru a) Ragnheiður, f. 1961. b) Sverrir, f. 1965, hans kona er Christine. Börn: Stefán, Koby og Lóa. c) Guðrún, f. 1968, hennar maður er Josh Rubin. Þeirra börn eru Jack, Zoe og Cassie. 2) Sigrún Inga, f. 6. apríl 1943 í Reykjavík, kortateiknari. Maður hennar var Þrándur Thoroddsen, kvikmyndagerðarmaður og þýðandi, f. 17. júní 1931, d. 13. jan. 2010. Börn þeirra eru a) Rannveig, f. 1966, líffræðingur. Dóttir hennar er Solveig Árný. b) Solveig, f. 1970, myndlistarmaður og kennari. Hennar börn eru Dagur og Sigrún. c) Jón, f. 1977, hugbúnaðarsérfræðingur, hans kona er Fjóla Dísa Skúladóttir. Synir þeirra eru Emil og Kári. d) Guðmundur, f. 1980, myndlistarmaður, sambýliskona hans er Arna Óttarsdóttir. Jón lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1932. Hann lagði einnig stund á tónlist og lærði ungur á orgel og síðar nam hann trompetleik hjá Karli O. Runólfssyni tónskáldi. Um 1940 fór hann að leika á horn og var síðar í tímum hjá Wilhelm Lanzky-Otto, mjög virtum hornleikara sem dvaldi hér í nokkur ár eftir síðari heimsstyrjöldina. Fyrsta hluta starfsævinnar vann Jón við verslunarstörf og var síðast við afgreiðslu hjá Guðlaugi A. Magnússyni gullsmið. Við stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar 1950 var hann ráðinn sem hljóðfæraleikari í hálfu starfi og vann því jafnhliða í verslun Guðlaugs. Síðar varð hann fastráðinn við hljómsveitina og starfaði alls í 32 ár sem hljóðfæraleikari við hana. Eftir það vann hann sem umsjónarmaður með nótum og fleiru. Jón var tæplega 86 ára þegar hann lét af störfum við Sinfóníuna. Jafnframt þessum störfum lék hann lengi með ýmsum lúðrasveitum. Með þeim og einnig Sinfóníunni ferðaðist hann víða, bæði innanlands og utan. Útför Jóns fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 25. febrúar 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Mig langar að minnast elskulegs afa mín með nokkrum orðum.  Hann var fyrst og fremst lífsglaður ljúflingur sem hugsaði alltaf fyrst um hag og líðan annarra, hvort sem um var að ræða menn, dýr eða plöntur.

Afa þakka ég allar þær fjölmörgu sögur sem hann sagði mér við eldhúsborðið í Grundargerðinu, af lífi sínu og samferðafólki hans á langri ævi.

Afi fæddist í Reykjavík, 31. ágúst 1914.  Hann var eina barn Guðrúnar Ólafíu, móður sinnar en föður sínum kynntist hann aldrei.  Hann var  sannkallað sólskinsbarn og ólst upp við gott atlæti hjá mömmu sinni, móðursystur og móðurforeldrum sínum, kaupmannshjónunum Sigurði og Petrónellu. Afa sinn kallaði hann alla tíð pabba.

Æskuheimilið var við Grettisgötu en fjölskyldan rak verslunina Gretti í sama húsi, enda var afi kallaður Nonni litli í Gretti. Sigurður kaupmaður, reffilegur maður með sjóræningjalepp tók á móti bændum úr nágrannasveitum sem komu reglulega með mjólk og aðrar afurðir í kerru sinni í búðina. Kjör fólks í Reykjavík voru, eins og gengur, með misjöfnum hætti en ekki var gengið hart á eftir fólki, þar sem þröngt var í búi, að greiða skuldir sínar við kaupmanninn.

Afi var skírður eftir móðurbróður sínum sem 16 ára gamall fórst með skipinu Soffíu Wetley sem fórst á Sundunum árið 1906.  Pabbi hans tók það loforð af honum að hann yrði ekki sjómaður.  Samt sem áður komst afi mjög nærri því að drukkna þegar hann sem drengur datt í sjóinn í Njarðvíkum, þar sem hann dvaldist oft á sumrin hjá frændfólki.  Honum fannst hann vera hagræða kodda sínum og leggjast til hvílu þegar hann var hrifsaður upp. Dvölin á hafsbotni var orðin svo þægileg að hann streittist harkalega á móti.

Í bíltúrum og gönguferðum okkar um miðbæinn rifjaði afi upp sögur af  skemmtilegum persónum og atburðum sem gæddu bæinn lífi á fyrri hluta 20. aldar.  Miðbærinn var hans leiksvæði og á vetrum renndi hann sér niður Vitastíginn, alla leið niður í fjöru, á sleða. Járnbrautarlestin sem gekk úr Öskjuhlíð og flutti grjót niður að Höfn freistaði líka þriggja stráka sem sáu þarna tækifæri til að endurgera atriði úr þögulli kúrekamynd.  Afi lenti í hlutverki þess sem var bundinn á teinana en var svo yfirgefinn af félögunum. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef ekki hefði svo heppilega viljað til að maður átti leið þarna hjá og losaði afa úr prísundinni.

Sextán ára fór afi á fyrsta fylleríið, með Geira vini sínum, hann vissi varla í þennan heim né annan þegar hann skilaði sér einhvern veginn heim. Daginn eftir tók pabbi hans hann með sér í langan göngutúr upp í Öskjuhlíð þar sem hann lagði honum lífsreglurnar varðandi áfengisdrykkju. Vín væri gleðigjafi og gott í hófi en misnotkun á því eyðilagt margan manninn. Afi var mikill áhugamaður um vín og lagaði sitt eigið sem þótti afbragðsgott. Landann kallaði hann Eymund og nokkrum sinnum herjaði ég út úr honum mjöðinn þegar veisluhöld stóðu fyrir dyrum.

Afi þótti hávær sem barn og spáði því einhver kerlingin að hann yrði prestur. Ekki varð úr því en afi hafði hljómmikla og fallega barítónrödd og hafði mjög gaman af að syngja svo ekki sé meira sagt. Sem drengur var hann í kór og  átti einhvern tímann að syngja einsöng á skemmtun. Afi sem var feiminn að eðlisfari og tók það ekki í mál en þá brá kórstjórinn á það ráð að fá annan dreng til að hreyfa varirnar en afi stóð aftast í hvarfi við áheyrendur og söng.

Oft lá svo vel á afa við eldhúsborðið í Grundargerðinu að hann brast í söng og var þá ekki lengur samtalshæft í eldhúsinu. Stundum greip hann eitthvað á lofti, orð eða setningu úr samræðum viðstaddra og setti inni í þekktar vísur eða kvæði. Fór með fyrstu línu og spurði mig síðan hvað kæmi næst, svo fórum við saman með restina af kvæðinu eða söngnum.

Eldhúsið í Grundargerðinu var einn helst samkomustaður stórfjölskyldunnar þar sem notalegt var að koma við á leið úr vinnu eða öðru og þiggja kaffisopa en afa fannst kaffið best með músík, enda músíkmaður af lífi og sál.

Afi tók verslunarpróf úr Verslunarskólanum árið 1932 og eftir það vann hann um tíma í raftækjaverslun.  Síðar eftir stríðið hóf hann störf í verslun Guðlaugs A. Magnússonar.  Verslunarstörf áttu þó ekki eftir að verða hans helsta ævistarf.  Á æskuheimili afa var orgel sem hann fékk tilsögn í að leika á, síðar lærði hann sem ungur maður á trompet hjá Karli O. Runólfssyni og spilaði með Lúðrasveitinni Svani. Seinna þegar hann var orðinn giftur maður og faðir tveggja stelpna, kom hingað til lands þýskur maður, Wilhelm Lanzy Otto, virtur hornleikari. Afa bauðst að fara í nám til hans og læra á Waldhorn. Árið 1944 stóð afi minn á bökkum Almannagjár á Þingvöllum ásamt Karli og blésu þeir inn lýðveldið, undir kröftugu skýfalli. Hann spilaði með Sinfóníuhljómsveit Íslands, frá stofnun hennar 1950. Fyrst í stað gegndi hann hálfri stöðu og leysti amma hann þá af í silfurbúðinni hans Guðlaugs. Þegar hann tók við fullri stöðu tók amma yfir starf hans í búðinni og gegndi því til æviloka 1986. Síðustu ár sín í starfi var sá afi minn um uppsetningu nótna og var gleðigjafi í Háskólabíóinu, en hann hætti að vinna árið 2000.

Afi kynntist ömmu, Vestmannaeyjastúlkunni, Árnýju Sigurðardóttur frá Skuld sem var þá nýkomin til Reykjavíkur.  Segir sagan að hún hafi verið á vappi með vinkonu sinni þegar þær sáu afa tilsýndar.  Amma lýsti því þá yfir við vinkonu sína að þessum manni ætlaði hún að giftast enda var þarna einstaklega myndarlegur maður á ferð. Afi heillaðist af glaðlyndi ömmu og minntist þess þegar þau fyrst hittust ásamt öðru fólki að hún hló svo mikið að tárin láku niður kinnarnar. Svona man ég líka ömmu, hún var kona sem gustaði af, hláturmild og umfaðmandi en líka mjög ákveðin og lá ekki á meiningu sinni.  Afi var á því að hann væri mikill lánsmaður að hafa fengið svo góða konu, hann dáði hana og kom fram við hana eins og drottningu.  Þau voru indælishjón og algerlega ætluð hvort öðru. Leiddust í gönguferðum sínum og voru einstaklega samhent á allan hátt.  Lítil og látlaus saga sem afi sagði mér, segir manni svo mikið um samheldni þeirra. Ömmu og afa fannst gaman að bjóða fólki heim og seint um kvöld að lokinni einni veislunni, beið uppvaskið í stöflum og hefði svosem getað beðið þar til morguns.  Þá lítur amma á staflann og svo á afa og segir: Nonni, eigum við?

Samt voru þau hjónin ólík á margan hátt, afi keypti Þjóðviljann en amma Moggann.  Þó hélt afi áfram að kaupa Moggann eftir að amma kvaddi.

Amma og afi voru ungt fólk í kreppunni, Lóa móðursystir mín kom í heiminn árið 1939.  Afi fór daglega niður á Eyrina við Reykjavíkurhöfn, stillti sér upp í röð þar sem menn voru valdir úr til að vinna þann daginn.  Afi var mikill ljúflingur og aldrei sá ég hann reiðast alvarlega.  Einhvern tímann spurði ég hann í gamni hvort hann hefði aldrei verið reiður.  Jú, þegar náungi sem hann vissi að hefði ekki fyrir öðrum að sjá en sjálfum sér var pikkaður út úr röðinni en ekki hann sem átti konu og barn sem biðu heima.  Svo fór þó að amma fékk vinnu í Ísbirninum en afi var heima og annaðist barnið.  Alla tíð var hann liðtækur í húsverkum þó það væri langt frá því að vera sjálfgefið af manni af hans kynslóð.

Auk tónlistarinnar var helsta áhugamál afa var garðyrkja og blómarækt en plöntur og græðlingar áttu skjól um allt hús og garð.  Hann talaði hlýlega til þessa vina sinna enda dafnaði gróðurinn vel.  Lengi vel endaði helgarrúnturinn í Blómavali þar sem keypt voru fræ sem með umhyggju afa áttu eftir að blómstra.  Hann fylgdist vel með íþróttum og var mér snemma innrætt að halda með Val og hélt ég því til streitu þrátt fyrir að alast upp í Víkingshverfi.  Mér fannst indælt að geta horft með afa á spítalanum, á æsispennandi úrslitaleik Dana og Frakka í HM  þótt við hefðum frekar viljað sjá Dani vinna.

Fyrir utan plötu- og geisladiskasafnið sem allt var skráð og skipulagt eftir kúnstarinnar reglum, átti afi mikið bókasafn og var vel lesinn. Hann var fróðleiksfús, víðsýnn og umburðarlyndur.  Fyrir utan skáldsagnalestur las hann gjarna ævisögur, bækur um garðrækt og andleg málefni.  Hann hafði sína barnatrú en kynnti sér austræna heimspeki og jógafræði.

Fyrir 7 árum flutti Rannveig systir mín og Solveig Árný dóttir hennar inn í afahús, kötturinn Grettir fylgdi með.  Afi og Solveig létu sér ekki leiðast þegar Rannveig var í vinnunni en afi var látinn leika ýmis hlutverk í leikjum Solveigar. Flugfarþegi, viðskiptavinur á kaffihúsi o.s.frv.  Afi var barngóður og alltaf til í leik, hann varðveitti barnið í sér og hafði áreiðanlega ekki minna gaman að leiknum en börnin.

Kötturinn Grettir varð mikið uppáhald afa og var hann alltaf fljótur að standa með sínum lagsmanni ef einhverjum dirfðist að amast við honum.  Afi þóttist vita að Grettir stæði líka með honum og skömmu fyrir jól þegar afi veiktist þá var rætt um að heimsækja lækni.  Þá fussaði í afa: Ég fer ekkert til læknis, hvar er Grettir?? Og hananú!!  Afi var alla tíð sérlega heilsuhraustur. Fyrir um 6 árum fór hann í mjaðmaliðsaðgerð og var það í fyrsta sinn sem hann lagðist inn á spítala. Þessi aðgerð bætti líf hans mikið.

Hann lagðist í annað sinn inn á spítala skömmu fyrir jól, var með okkur fjölskyldunni um jólin og áramótin í síðasta sinn.  Afi var mikill flugeldakall og lengi sá hann um að kaupa flugeldana, en oft fór stór hluti fjölskyldunnar með í þá ferð, og skjóta þeim upp.  Hann naut þess að fylgjast með með þessu sjónarspili á himninum og ekki var hávaðinn síðri, maður lifandi! Fyrir nokkrum árum þegar afi horfði á flugeldana varð honum á orði að kannski sæi hann þá frá allt öðru sjónarhorni næst. Svona var afi, sá alltaf skemmtilegar hliðar á hlutunum enda hann var sólskinsbarn, það vissi hann og var þakklátur. Ég er svo þakklát að hafa átt minn afa Jón og kveð hann með söknuði ... ég ætlaði honum að verða a.m.k. 100 ára en það er víst ekki mitt að ráða því.

Solveig Thoroddsen